Formlegur samráðsfundur OPEC-ríkjanna fer fram 30. nóvember í Vín, og reikna fjárfestar á markaði með því að ríkin muni ná saman um að draga úr olíuframleiðslu, sem muni síðan leiða til hækkunar olíuverðs á heimsmarkaði.
Olíuverð hefur tvöfaldast á hálfu ári, sé horft til verðs á tunnunni af hráolíu. Í febrúar síðastliðnum kostaði tunnan 26 Bandaríkjadali, eftir hraða lækkun úr 110 Bandaríkjadölum rúmlega ári fyrr, en nú kostar tunnan um 52 Bandaríkjadali.
Áhrifamesta ríkið innan OPEC er Sádí-Arabía, en til samtaka tilheyra fjórtán olíuframleiðsluríki. Auk Sádí-Arabíu eru það Alsír, Angóla, Ekvador, Gabon, Indónesía, Íran, Írak, Kúveit, Líbía, Katar, Nígería, Sameinuðu arabísku furstadæmin, og Venesúela. Saman standa ríkin undir meira en 33 prósent af heimsframleiðslunni. Olíuframleiðsluríki eins og Brasilía, Bandaríkin, Rússland og Noregur standa utan OPEC.
Haft var eftir Vladímir Pútín, Rússlandsforseta, í gær að Rússar myndu fylgja OPEC ef samstaða næst um að draga úr framleiðslu. Íran mun að líkindum frá undanþágu og fá að halda fullri framleiðslu, að því er Bloomberg greindi frá í gær.
Í Noregi hefur verið nokkur samdráttur í atvinnulífi, ekki síst í kringum Stavanger í Rogalandi, enda svæðið hjartað í olíuiðnaði landsins. Höfuðstöðvar Statoil eru í Stavanger og mörg þjónustufyrirtæki í olíuiðnaði eru staðsett þar sömuleiðis. Um fimm þúsund Íslendingar eru búsettir á stór-Rogalandssvæðinu, af um tíu þúsund Íslendingum sem búa í Noregi.
Forvitnilegt verður að fylgjast með því hvort bensínverð muni hækkað hér á landi á næstunni. Fylgjast má með þróun mála á bensínvakt Kjarnans.