Bandaríski tónlistarmaðurinn Bob Dylan hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2016. Þetta var tilkynnt fyrir skömmu. Hinn 75 ára gamli Dylan hlýtur verðlaunin fyrir að hafa skapað nýja ljóðræna tjáningu innan bandarískrar tónlistarhefðar.
Sara Danils hjá sænsku Nóbelsnefndinni tilkynnti um verðlaunahafann og sagði Dylan hafa verið að í 54 ár og á þeim tíma sé hann sífellt að gera nýja hluti. Mögulega komi valið einhverjum á óvart, en ef litið er langt til fortíðar þá hafi Homer og Sappho skrifað ljóðræna texta fyrir fimm þúsund árum síðan, og þeir textar hafi verið ætlaðir til flutnings. Sömu sögu sé að segja með Bob Dylan.
Venjulega er það svo að Nóbelsverðlaunin í bókmenntum séu veitt í sömu viku og önnur Nóbelsverðlaun, en svo var ekki í þetta skipti. Miklar vangaveltur hafa verið uppi um að ástæðan sé ágreiningur innan nefndarinnar sem velur verðlaunahafa, en þessu hefur nefndin reyndar vísað á bug, þótt sænskir fjölmiðlar hafi gefið lítið fyrir það.
Í morgun var keníski rithöfundurinn Ngugi wa Thiong’o talinn líklegastur til að hreppa verðlaunin af veðmálafyrirtækinu Ladbrokes, og þar á eftir hinn japanski Haruki Murakami og sýrlenska skáldið Adonis.