Gunnlaugur Ingvarsson og Gústaf Níelsson, sem leiða áttu lista Íslensku þjóðfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur, hafa ákveðið að draga framboð sitt til baka. Þetta tilkynntu þeir á blaðamannafundi sem þeir héldu á kaffihúsi í Hörpu í dag. Greint er frá því á vef RÚV.
Ástæðuna segja þeir vera að formaður flokksins, Helgi Helgason, sé fullkomlega áhugalaus um framgang, hugsjón og stefnu Íslensku Þjóðfylkingarinnar. Þeir treysti sér því ekki til að starfa með honum. Í yfirlýsing segja þeir: „Stjórnmálaflokkur verður að njóta traustrar forustu, eigi árangur að nást. Íslenska þjóðfylkingin nýtur þess ekki. Ítrekað hefur formanni flokksins verið bent á það, að hann ræður ekki við verkefnið. Hann man ekki að kvöldi, hvað hann sagði að morgni, hann veit ekki hvort hann er að koma eða fara og er óöruggur í allri framgöngu, undirförull og óheill.“
Íslenska þjóðfylkingin mælist með 2,1 prósent fylgi samkvæmt nýjustu Kosningaspá Kjarnans.
Andstaða gegn hjónaböndum samkynhneigðra
Gústaf Níelsson hefur vakið mikla athygli fyrir skoðanir sínar á innflytjendamálum á undanförnum árum, sérstaklega eftir að hann var skipaður varamaður Framsóknar og flugvallarvina í mannréttindaráð Reykjavíkurborgar í janúar 2015. Gústaf hafði opinberlega lýst yfir andstöðu gegn hjónaböndum samkynhneigðra og byggingu mosku í Reykjavík áður en hann var skipaður í embættið. Skipun Gústafs var síðar dregin til baka. Í hinum ýmsu viðtölum og greinum í aðdraganda skipunar sinnar hafði Gústaf m.a. lýst yfir þeirri skoðun sinni að hann vildi banna íslam á Íslandi og að Ísland væri „síðasta vígi kristinna manna“.
Í upphafi febrúarmánaðar 2015, eftir að skipun hans hafði verið afturkölluð, birtist svo viðtal við Gústaf í DV þar sem hann hélt því meðal annars fram að til að múslimar geti aðlagast vestrænu samfélagi, þyrftu þeir einfaldlega að „kasta trúnni“. Ennfremur sagði Gústaf að mörg „íslömsk ríki séu í algerri upplausn“ og slíkt leiði af sér flóttamannastrauminn sem legið hafi til Evrópu. Hagur Vesturlanda felist í því að stilla til friðar í þessum löndum þó það geti reynst erfitt: „Evrópa getur ekki verið niðurfall fyrir þessi handónýtu ríki. Við ráðum ekki við þetta“. Fjölgun múslima á Vesturlöndum kallaði Gústaf „hið hljóðláta landnám“ og lýsti áhyggjum sínum á áhrifum þess.
Gústaf hafði þó ekki aðeins áhyggjur af þeim áhrifum sem múslimar gætu haft á vestrænt samfélag heldur hvert ástandið yrði, ef til uppreisnar gegn þeim kæmi. Hann tók þó fram að hann vildi ekki að það kæmi til trúarbragðastyrjaldar og það færi fyrir múslimum eins og fór fyrir gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni.
Gústaf tilkynnti um framboð sitt fyrir Íslensku þjóðfylkinguna 15. september síðastliðinn, eða fyrir tæpum mánuði.
Fara með fleipur um sitt helsta baráttumál
Íslenska þjóðfylkingin er stjórnmálaflokkur sem vill sameina „þjóðholla Íslendinga“, berst fyrir hertri innflytjendalöggjöf og gegn fjölmenningu. Helgi Helgason, formaður Íslensku þjóðfylkingarinnar, sagði í leiðtogaumræðum á RÚV í september að stefna flokksins „byggist fyrst og fremst á því hvað er að gerast í Evrópu og í löndunum í kringum okkur. Það vita allir hvernig ástandið er þar. Í Svíþjóð sérstaklega. Eins og þið hafið kannski tekið eftir því að sænska lögreglan segir að það sé ekki hægt að fara inn í 25 hverfi, eða hvað það nú var, 20 eða 22 hverfi, vegna þess að þar eru innflytjendur í meirihluta og þeir hafa einfaldlega gert þeim grein fyrir því að þar gildi ekki sænsk lög. Við viljum ekki að þetta ástand komi hingað til lands.“
Helgi var einnig í viðtali í Stundinni í lok síðasta mánaðar. Þar sagði hann að í Svíþjóð væru „fimmtíu hverfi þar sem ekki gilda sænsk lög.“
Kjarninn ákvað í kjölfarið að kanna hvort þær fullyrðingar sem Helgi setti fram í þættinum og í viðtalinu við Stundina stæðust. Niðurstaða Staðreyndarvaktar Kjarnans var að svo væri ekki. Helgi færi með fleipur.