Í stöðuuppfærslu á Facebook vegna þessa segir Sigmundur Davíð að frá því að hann „hóf þátttöku í stjórnmálum hefur hópur fólks talið það hlutverk sitt að reyna að gera flest það sem ég segi ótrúverðugt, allt frá stórum tillögum í efnahagsmálum að frásögn um hversdagslega atburði.
Á miðstjórnarfundi um daginn gerði ég grín að því að menn hefðu meira að segja talið það til marks um „paranoju“ að telja að menn myndu gera ýmislegt til að verja hagsmuni sem voru álíka miklir og verðmæti allra mannvirkja í Reykjavík og hringinn í kringum landið. Það var því skondin kaldhæðni að fréttir af fundinum næstu daga á eftir snérust aðallega um atriði sem ég hafði nefnt í framhjáhlaupi, þ.e. að brotist hefði verið inn í tölvuna mína, og leitast við að gera það ótrúverðugt. Einn fjölmiðill fékk mann til að halda því fram að það að brotist hefði verið inn í tölvuna líktist vísindaskáldsögu.“
Í krafti upplýsingalaga fékk Sigmundur Davíð afhent gögn sem varða málið frá Ríkislögreglustjóra. „Þar birtast samskipti ríkislögreglustjóra (RLS) og rekstrarfélags Stjórnarráðsins (RFS) auk þess sem afrit voru í sumum tilvikum send til forsætisráðuneytisins og ríkissaksóknara.
Fram kemur að tölvupóstur sem sendur var á mig og látinn líta út fyrir að hann hefði komið frá öðrum en þeim sem sendi hann hefði líklega innihaldið þekkta tölvuveiru að nafni „Poison Ivy backdoor“. Um þá veiru segir í bréfi frá RFS: „Einkenni hennar eru þær að hún opnar bakdyr inn á tölvu viðkomandi fyrir aðgengi árásaraðila að tölvunni“. Þótt veiran hafi ekki fundist í tölvunni er tekið fram að „Algengt er með slíka veirur að árásaraðilinn hreinsar til eftir sjálfan sig að lokinni aðgerð“. Atvikið var skráð sem öryggisatvik hjá RFS.
Embætti ríkislögreglustjóra fylgdi málinu svo eftir og hafði samráð um það við ríkissaksóknara. Ástæða er til að taka fram að ekki er annað að sjá en að RLS hafi staðið mjög faglega að meðferð þessa máls og það er í samræmi við reynslu mína af embættinu sem forsætis- og dómsmálaráðherra. “
Engin staðfest ummerki um tölvuinnbrot
Kjarninn greindi frá því 12. september síðastliðinn að engin staðfest ummerki hefðu fundist um það að innbrot hafi átt sér stað í tölvu Sigmundar Davíðs við ítarlega skoðun rekstrarfélags stjórnarráðsins.
Þetta kom fram í svari rekstrarfélagsins við fyrirspurn Kjarnans, en Sigmundur Davíð hélt því fram í ræðu á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins helgina áður að brotist hafi verið inn í tölvuna hans. „Ég veit að það var brotist inn í tölvuna hjá mér,“ sagði Sigmundur Davíð í ræðunni. Hann hafi látið yfirfara hana hjá öryggisfulltrúa í stjórnarráðinu og þar hafi fundist merki um að reynt hafi verið að brjótast inn. Við eftirgrennslan Kjarnans um helgina staðfesti Sigmundur Davíð það sem hann fullyrti í ræðu sinni um að reynt hafi verið að brjótast inn í tölvuna hans.
Sigmundur Davíð óskaði eftir því við rekstrarfélag stjórnarráðsins þann 1. apríl síðastliðinn að tölvan hans yrði skoðuð vegna „rökstudds gruns hans um mögulegt innbrot“ í tölvuna. Þetta kemur fram í svari rekstrarfélagsins við fyrirspurn Kjarnans. Það er nokkrum dögum áður en hann sagði af sér sem forsætisráðherra, en það gerði hann þann 5. apríl.
„Rekstrarfélag Stjórnarráðsins sér um rekstur staðarnets Stjórnarráðsins og þjónustar þær útstöðvar sem tengjast því, tölva forsætisráðherra er þar á meðal. Rekstrarfélagið sér einnig um tölvuöryggismál Stjórnarráðsins. Þann 1.apríl 2016 barst félaginu beiðni frá forsætisráðherra um að skoða tölvu ráðherra vegna rökstudds gruns hans um mögulegt innbrot. Við ítarlega leit fundust ekki staðfest ummerki að innbrot hafi átt sér stað,“ segir í svari Guðmundar Halldórs Kjærnested, framkvæmdastjóra rekstrarfélagsins, við fyrirspurn Kjarnans.
Fyrr sama dag greindi Vísir frá því að innbrot í tölvu forsætisráðherra hefði ekki verið tilkynnt til ríkislögreglustjóra, sem fer með brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess. Ríkislögreglustjóri tók hins vegar málið upp eftir umfjöllun fjölmiðla, samkvæmt bréfinu sem Sigmundur Davíð birtir á Facebook síðu sinni. Í bréfinu, sem er dagsett 16. september, kemur einnig fram að ríkislögreglustjóri hafi hætt rannsókn á málinu eftir samráð við ríkissaksóknara.