Dæmi eru um að verðandi mæður sem áttu að fara í gangsetningu til að koma fæðingu af stað hafi frestað fæðingunum fram yfir 15. október. Ástæðan er sú að þá tekur ný regluferð um fæðingarorlofsgreiðslur gildi sem hækkar hámarksgreiðslu í orlofinu úr 370 þúsund krónum í 500 þúsund krónur á mánuði. Mikil ólga er í verðandi foreldrum vegna stöðunnar. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Þar er rætt við tvær verðandi mæður sem eru langt gengnar. Önnur þeirra, Hildur Guðmundsdóttir, er gengin 38 vikur og segist vona innilega að hún fari ekki af stað fyrir 15. október, sem er á laugardag. Það geti skipt hana hundruðum þúsunda króna hvort hún eignist barn sitt fyrir þann tíma sem reglugerðin tekur gildi eða eftir. Í blaðinu er einnig rætt við Evu Rós Ólafsdóttur sem átti að fara í gangsetningu á morgun, 14. október. Hún hefur nú frestað henni fram yfir helgi í samráði við lækni af fjárhagslegum ástæðum. Bæði hafi það mikil fjárhagsleg áhrif á fjölskyldu hennar að fá hærri fæðingarorlofsgreiðslur og haft áhrif á hvort faðir barnsins geti tekið fullt fæðingarorlof.
Tilkynnt um hækkun fyrir viku síðan
Tilkynnt var um það síðastliðinn föstudag að fæðingarorlofsgreiðslur verða hækkaðar í 500 þúsund krónur frá og með 15. október næstkomandi. Þetta var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar þann dag, að tillögu Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra.
Hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi eru nú 370 þúsund krónur, en verða hækkaðar í 500 þúsund krónur sem fyrr segir. Fæðingarstyrkur og lágmarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækka einnig.
Eygló hafði áður áformað að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um fæðingarorlof, sem byggði á tillögum starfshóps sem hún skipaði árið 2014 til að móta framtíðarstefnu stjórnvalda í þessum málum. Samkvæmt því frumvarpi átti að hækka hámarksgreiðslur í 600 þúsund krónur, auk þess sem lengja átti fæðingarorlofið í áföngum. Þá liggur fyrir frumvarp inni í þinginu frá þingflokki Samfylkingarinnar þar sem lagt er til að hámarksgreiðslur hækki í 500 þúsund krónur, auk þess sem fæðingarorlof yrði lengt í áföngum. Það frumvarp hefur verið í velferðarnefnd þingsins frá því í mars.
Kveðið verður á um þessar hækkanir með reglugerð, en ekki með lögum frá Alþingi eins og venjan er. Breytingarnar eiga að taka gildi 15. október og gildir aðeins um foreldra barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur þann dag eða síðar.