„Við höfum séð þetta áður. Þegar kærulaus stjórnvöld fyrirgera réttarríkinu hverfur erlend fjárfesting og landsmenn gjalda fyrir það. Á Íslandi mismuna ný lög alþjóðlegum fjárfestum og neyða þá til að selja skuldabréf sem tryggð eru í krónum með miklum afslætti, eða til að láta eignir sínar á reikninga sem bera enga vexti. Tölum skýrt: Svívirðileg ný lög landsins mismuna fjárfestum eftir þjóðerni þeirra. Frekar en að halda áfram viðræðum við alþjóðlega fjárfesta sem reynt hafa að ná samningum í góðri trú hefur Ísland stillt þeim upp við vegg.“
Svona hljómar byrjun texta auglýsingar sem birtist á síðu 9 í Fréttablaðinu í dag. Þar er enn fremur settur fram hræðsluáróður um að meint mismunun íslenskra stjórnvalda setji í hættu„efnahagslegt öryggi íslenskra borgara.“ Auglýsingin hefur einnig verið birt á dönsku í dönskum fjölmiðlum, m.a. viðskiptablaðinu Börsen, og á ensku í bandarískum fjölmiðlum.
Sá sem ber ábyrgð á auglýsingunni er verkefnið „IcelandWatch.org“ sem rekið er af hugveitunni Institute for Liberty. Í auglýsingunni kemur sérstaklega fram að verkefnið sé enn fremur fjármagnað af hugveitunni. The New York Times fjallaði um Institute for Liberty árið 2011 eftir að hugveitan hafði beitt sér í Indónesíu. Þá snérist verkefni hennar um að koma í veg fyrir að ákveðin pappírsfyrirtæki þyrftu að greiða toll af vörum sínum í Bandaríkjunum. Hugveitan var stofnuð 2005 af manni sem heitir Jason Wright sem hefur m.a. barist gegn sjúkratryggingalögum Barack Obama gegn hárri greiðslu.
IcelandWatch.org verkefnið vakti fyrst athygli hérlendis þegar það keypti birtingar á Twitter til að koma boðskap sínum á framfæri. Augljóst er að tilgangurinn er að gæta hagsmuna erlendra kröfuhafa sem neituðu að taka þátt í aflandskrónuuppboði Seðlabanka Íslands í sumar sökum þess að þeim fannst gengið sem þar var í boði fyrir skuldabréf þeirra ekki nógu hátt. Þess í stað voru eignir þeirra settar inn á vaxtalausa reikninga. Það var hægt vegna sérstakra laga sem Alþingi setti í aðdraganda útboðanna. Lagasetningin var rökstudd með því að aðgerðirnar þættu nauðsynlegar til að stuðla að greiðslujafnvægi í íslenska efnahagskerfinu og verja stöðugleika landsins.
Tveir bandarískir sjóðir, Eaton Vance Corp. og Autonomy Capital LP, sættu sig ekki við að eignir þeirra hafi verið settar inn á nær vaxtalausa reikninga í refsingarskyni fyrir að taka ekki þátt í útboðunum. Þess í stað fólu sjóðirnir lögmanni sínum að kanna grundvöll fyrir mögulegri málshöfðun á hendur íslenska ríkinu auk þess sem þeir hafa kvartað til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna lagasetningar sem samþykkt voru aðfaranótt 23. maí síðastliðins, og þeir telja að feli í sér eignarupptöku og brot á jafnræðisreglu. Fyrsta skrefið í þeirri viðleitni var að fara fram á það við héraðsdóm Reykjavíkur að sérfræðingar verði skipaðir til að fara yfir lögmæti þeirra aðgerða sem framkvæmdar voru gegn aflandskrónueigendum með lögum sem samþykkt voru fyrr á þessu ári.
Íslenska ríkið hefur reynt að koma í veg fyrir að héraðsdómur Reykjavíkur skipi sérfræðinga til að meta hvort ríkið hefði efnahagslegar forsendur fyrir því að neita að skipta aflandskrónum sjóðanna tveggja á lægra verði en markaðsverði, líkt og Kjarninn hefur greint frá.
Málflutningur IcelandWatch.org er keimlíkur málflutningi vogunarsjóðanna tveggja. Í auglýsingunni sem birt var í Fréttablaðinu í dag er enn fremur lögð áhersla á að sýna fram á að í raun sé verið að hafa fé af almenningi í Bandaríkjunum með aðgerðum Íslendinga, ekki bara andlitslausum vogunarsjóðum í gróðahugleiðingum. Í síðari hluta hennar segir: „Gjörðir Íslands munu skaða milljónir bandarískra fjárfesta sem og stofnanir og almenning sem hafa sparifé í einstaklingsbundnum séreignasparnaði, lífeyrissjóðum og tryggingasjóðum. Þetta eru sömu fjárfestar og Seðlabanki Íslands leitaði til árið 2008 og létu honum í té það fjármagn sem þörf var á til að koma stöðugleika á íslenskan efnahag. Hagvöxtur á Íslandi er nú 4,5%. Ferðamannaiðnaðurinn blómstrar. Atvinnuleysi er bara 2,5% Mismunun íslenskra stjórnvalda með þessari lagasetningu setur í hættu allan þennan ávinning, sem og efnahagslegt öryggi íslenskra borgara. Það er tími til kominn að Ísland hætti þessari mismunun og komi jafnt fram við alla fjárfesta, sama hvar þeir kunna að búa.“