Greiðslukortafyrirtækið Borgun hf. styrkti bæði Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn um 250 þúsund krónur hvorn í fyrra. Þetta kemur fram í útdráttum af ársreikningum flokkanna tveggja, sem skilað hefur verið inn til Ríkisendurskoðunar. Samfylkingin hefur einnig skilað inn ársreikningi sínum fyrir árið 2015 en flokkurinn fékk ekki styrk frá Borgun. Kjarninn mun fjalla nánar um ársreikninga flokkanna á næstunni.
Samkvæmt upplýsingum frá Borgun styrkti fyrirtækið alla flokka sem sóttu um styrk í fyrra.
Í lok ársins 2014, í nóvembermánuði, seldi Landsbankinn 31,2 prósent hlut sinn í Borgun fyrir 2,2 milljarða króna til Eignarhaldsfélagsins Borgunar slf., sem stofnað var skömmu fyrir kaupin á hlutnum. Salan á Borgun var umdeild en hluturinn var ekki auglýstur til sölu, líkt og Kjarninn greindi fyrstur frá í lok nóvember 2014.
Bæði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, gagnrýndu söluna opinberlega eftir að greint var frá því hvernig að henni var staðið. Sigmundur Davíð sagði málið klúður og undir það tók Bjarni, sem sagðist einnig styðja að rannsókn færi fram á því hvernig að málinu var staðið. Fimm af sjö bankaráðsmönnum Landsbankans sögðu af sér eftir gagnrýnina, meðal annars frá Bankasýslu ríkisins.
Íslenska ríkið er langsamlega stærsti eigandi Landsbankans með um 98 prósent hlut. Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs Landsbankans, sagði í ræðu sinni á aðalfundi Landsbankans í fyrra að betra hefði verið að auglýsa hlutinn til sölu, og selja hann þannig í opnu og gagnsæju ferli. Þá voru einnig sterkar vísbendingar um það að verðið hefði verið í lægri kantinum miðað við hefðbundna mælikvarða verðmata á sambærilegum fyrirtækjum.
Hópurinn sem keypti hlutinn hefur þegar hagnast á fjárfestingunni, en virði Borgunar hefur hækkað og félagið hafið að greiða út arð. Stærsti einstaki eigandinn í félaginu sem keypti hlutinn, eignarhaldsfélaginu Borgun slf., er Stálskip ehf., þar sem Guðrún Lárusdóttir hefur stýrt ferðinni í áratugi, með 29,43 prósent hlut. Þá á félagið P126 ehf. 19,71 prósent hlut, en eigandi þess er Einar Sveinsson í gegnum móðurfélagið Charamino Holdings Limited sem skráð er á Lúxemborg. Þá á Pétur Stefánsson ehf. 19,71 prósent hlut, en forsvarsmaður þess var Sigvaldi Stefánsson á stofnfundi. Samanlagður eignarhlutur þessara þriggja stærstu eigenda nemur 68,85 prósentum af B flokki stofnfjár.
Á eftir þessum stærstu eigendum kemur félagið Vetrargil ehf. með 5,14 prósent hlut og TD á Íslandi ehf. 5,15 prósent. Afganginn eiga AB 426 ehf (2,86%)., þar sem Sigurþór Stefánsson er í forsvari, Eggson ehf. (0,86%), þar sem Anna Birgitta Geirfinnsdóttir er í forsvari, Bústoð ehf. (0,86%), þar sem Anna Birgitta er einnig í forsvari, Framtíðarbrautin ehf. (4,43%), þar sem B. Jakobína Þráinsdóttir er í forsvari, Iðusteinar ehf., þar sem Magnús Pálmi Örnólfsson er í forsvari, Holt og hæðir ehf., þar sem Sigríður V. Halldórsdóttir er í forsvari, Spectabilis ehf., þar sem Óskar V. Sigurðsson er í forsvari, og Mens Manus ehf., þar sem Hjalti Þ. Kristjánsson er í forsvari.