Ríflega 80 prósent Íslendinga hafa miklar áhyggjur af plastmengun í hafinu, samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands. 68,5 prósent hafa miklar áhyggjur af hækkun á hitastigi hafsins og 66 prósent hafa miklar áhyggjur af súrnun hafsins.
Náttúruverndarsamtökin segja niðurstöðurnar áhugaverðar í ljósi þess að Ísland hafi enn ekki mótað neina samhæfða stefnu um það hvernig eigi að vernda lífríki hafsins gegn hnattrænum umhverfisógnum eins og súrnun hafs, plastmengun og hækkandi hitastigi.
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins höfðu í öllum tilvikum minnstar áhyggjur en kjósendur VG mestar áhyggjur.
Mestar áhyggjur af plastmengun í hafi
Yfir 80 prósent aðspurðra hafa frekar eða mjög miklar áhyggjur af plastmengun í sjónum, líkt og fyrr segir. 10,4 prósent aðspurðra sögðust hafa litlar eða engar áhyggjur af plastmengun í hafinu, og rúmlega níu prósent sögðust hvorki hafa miklar né litlar áhyggjur af menguninni. Marktækur munur var á svörum fólks eftir því hvar á landinu það býr, eftir menntun þess og eftir því hvaða stjórnmálaflokk það hyggst kjósa.
Þannig hafa 82% íbúa Reykjavíkur miklar áhyggjur af plastmenguninni, 84% íbúa í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar, en 75% íbúa í öðrum sveitarfélögum. Þá hafa 80% þeirra sem eru með grunnskólapróf miklar áhyggjur, 79% þeirra sem hafa viðbót við grunnskólapróf og 85% þeirra sem hafa háskólapróf. Hlutfallið er lægst með framhaldsskólamenntaðra, 77% þeirra hafa miklar áhyggjur af plastmengun í hafinu.
Þá hafa kjósendur Sjálfstæðisflokksins minnstar áhyggjur plastmengun í sjónum, 66% þeirra hafa mjög miklar eða frekar miklar áhyggjur af málinu. Næst koma kjósendur Viðreisnar, en 71% þeirra hafa miklar áhyggjur af plastmengun, líkt og 80% kjósenda Framsóknar og 88% kjósenda Pírata. 93% kjósenda Bjartrar framtíðar hafa miklar áhyggjur og næstum allir, eða 98% kjósenda Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.
Íbúar höfuðborgarsvæðis áhyggjufyllri en aðrir
68,5% aðspurðra hafa áhyggjur af hækkun á hitastigi hafsins, en 17,4% hafa hvorki miklar né litlar áhyggjur og 14% hafa litlar eða engar áhyggjur. Líkt og með plastmengun er marktækur munur á svörum eftir búsetu, menntun og stjórnmálaskoðunum.
71% íbúa Reykjavíkur hafa miklar áhyggjur af hækkandi hitastigi sjávar og 73% fólks í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur. Færri, eða 61 prósent í öðrum sveitarfélögum, hafa miklar áhyggjur af hækkandi hitastigi. Áhyggjur af hækkandi hitastigi hafsins aukast með aukinni menntun, 57% þeirra sem hafa grunnskólapróf hafa miklar áhyggjur af því en 77% þeirra sem hafa háskólapróf.
54% kjósenda Sjálfstæðisflokksins hafa áhyggjur af hækkandi hitastigi, 63 prósent kjósenda Viðreisnar og 64 prósent kjósenda Framsóknarflokksins. 76% kjósenda Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Pírata hafa miklar áhyggjur af hækkandi hitastigi og 92 prósent kjósenda Vinstri grænna.
Minnihluti Sjálfstæðismanna með miklar áhyggjur af súrnun sjávar
Súrnun hafsins veldur 65,9% mjög eða frekar miklum áhyggjum, en 19,5% hvorki miklum né litlum áhyggjur og 14,6% litlum eða engum áhyggjum. Marktækur munur er eftir aldri, en ekki búsetu eða menntun. Hins vegar er áfram marktækur munur á svörum eftir stjórnmálaskoðunum. Elsti aldurshópurinn, 65 ára og eldri, hefur mestar áhyggjur af súrnun sjávar, eða 76%.
48% kjósenda Sjálfstæðisflokksins hafa miklar áhyggjur af súrnun sjávar, 56% kjósenda Viðreisnar og 60% kjósenda Framsóknarflokksins. 72% kjósenda Bjartrar framtíðar, 73% kjósenda Pírata, 75% Samfylkingarkjósenda og 89% kjósenda Vinstri grænna hafa miklar áhyggjur af súrnun sjávar.
Könnunin var gerð 6. til 13. október, var netkönnun þar sem 1423 af öllu landinu voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup. Þátttökuhlutfallið var 59,6%.