„Ég skal bara segja, það verður ekki slík ríkisstjórn. Það verður ekki ríkisstjórn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks, og Viðreisnar eftir kosningar.“ Þetta sagði Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, í viðtali við útvarpsþáttinn Harmageddon á X-inu í morgun.
Bendikt sagði að það liti ekki út fyrir að breytingar myndu ná í gegn með núverandi stjórnarflokkum og Viðreisn vildi koma breytingum í gegn. Flokkurinn vildi til að mynda koma á myntráði, breytingu í landbúnaði og sjávarútvegsmálum. Í raun greini Viðreisn á við Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn í öllum meginmálum. „Ég tel það afar ólíklegt að við getum náð saman við þá. Ég held að það sé miklu líklegra að við náum saman við aðra flokka.“
Í viðtalinu sagði Benedikt að óformlegar þreifingar ættu sér stað á milli ýmissa flokka. Hann sagðist hins vegar ekkert hafa rætt við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og náfrænda sinn, á þeim nótum. „Nei, við höfum ekki átt kaffispjall mjög lengi,“ sagði Benedikt.
Viðreisn mælist með 10,9 prósent fylgi samkvæmt nýjustu Kosningaspá Kjarnans.