Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra skipaði Hrannar Pétursson, aðstoðarmann sinn, í stjórn Íslandsstofu í síðustu viku. Hún segist hafa litið þannig á málið að Hrannar væri besti maðurinn sem til boða stæði í stöðuna. „Þegar ég fékk Hrannar í ráðuneytið þá var það á faglegum en ekki pólitískum forsendum. Hann er ekki flokksbundinn Framsóknarmaður og hefur engum skyldum að gegna gagnvart flokknum.“ Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Hlutverk Íslandsstofu er meðal annars að vera samráðsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífsins fyrir markaðs- og kynningarstarf á erlendri grund. Greint var frá nýrri stjórn síðastliðinn fimmtudag sem á að sitja næstu þrjú árin og kom þá í ljós að Hrannar, sem bauð sig fram til forseta Íslands í sumar en dró svo framboð sitt til baka, væri einn þeirra sem skipaður hafði verið. Utanríkisráðherra skipar fjóra stjórnarmenn eftir tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, einn eftir tilnefningu iðnaðarráðherra, einn eftir tilnefningu mennta- og menningarmálaráðherra og einn án tilnefningar. Því er ljóst að Hrannar er sá sem skipaður var án tilnefningar. Hrannar var ráðinn aðstoðarmaður Lilju í byrjun maí 2016. Lilja segir ekki tímabært að ræða hvort Hrannar verði áfram aðstoðarmaður hennar ef hún sitji áfram í ráðherrastól eftir kosningar.
Í Fréttablaðinu segir Lilja að Hrannar hafi gífurlega reynslu á þessu sviði og því væri hann besti maðurinn sem til boða stæði í stöðuna. Hrannar er félagsfræðingur og var um tíma sjónvarpsfréttamaður fyrir tæpum tveimur áratugum en hefur síðan mest starfað við upplýsinga- og samskiptamál, fyrst hjá ISAL sem á og rekur álverið í Straumsvík og síðar fjarskiptafyrirtækinu Vodafone þar sem hann stýrði einnig mannauðs-, markaðs- og lögfræðimálum. Þá starfaði hann sem verkefnisstjóri í forsætisráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þar til í nóvember 2015.
Hrannar er ekki eini aðstoðarmaður ráðherra sem situr í stjórn stofnana eða fyrirtækja í eigu ríkisins. Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, situr til að mynda í stjórn Íslandspósts, og Matthías Imsland, aðstoðarmaður Eyglóar Harðardóttur og áður Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar, situr í stjórn Isavia. Þá situr Sunna Gunnars Marteinsdóttir, aðstoðarmaður Gunnars Braga Sveinssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í stjórn Matís ohf.