Verðbréfafyrirtækið Virðing er að reyna að eignast stóran hlut í fjárfestingabankanum Kviku. Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar, og Ármann Þorvaldsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar og einn hluthafa félagsins, hafa á undanförnum vikum fundað með nokkrum af stærri hluthöfum Kviku og lýst yfir áhuga á að kaupa hlut þeirra í bankanum. Virðing hefur, með fyrirvara um fjármögnun, þegar sett fram kauptilboð í bréf í Kviku. Frá þessu er greint í DV.
Þar segir einnig að skýrast muni á allra næstu vikum hvort kaupin gangi eftir. Þau gætu þá meðal annars verið fjármögnuð með aðkomu nýrra einkafjárfesta að Virðingu og leiða til yfirtöku á Kviku. Um haustið 2014 áttu sér síðan stað formlegar viðræður milli Virðingar og MP banka um sameiningu sem runnu hins vegar út í sandinn.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþing Singer&Friedlander í Bretlandi, og aðilar í kringum hann er orðaður við hlut í Kviku. Sumarið 2014 var til alvarlegrar skoðunar að sameina Straum fjárfestingarbanka og MP banka og jafnvel fleiri minni fjármálafyrirtæki, eins og Íslensk verðbréf og Virðingu. Ármann sýndi þá áhuga á að kaupa hlut í MP banka en það gekk ekki eftir. Þess í stað sameinuðust Straumur og MP banki formlega fyrir um 15 mánuðum síðan og úr varð Kvika.
Bókfært eigið fé Kviku nam tæplega 6,2 milljörðum króna í lok september á þessu ári.
Virðing sameinaðist Auði Capital í byrjun árs 2014.
Hluthafar Virðingar eru félag í eigu Kristínar Pétursdóttur, Lífeyrissjóður Verslunarmanna, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, félag í eigu Guðbjargar Eddu Eggertsdóttur, Stafir lífeyrissjóðir, félag í eigu Ármanns Þorvaldssonar og meðfjárfesta, félag í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar og félag í eigu Kristína Jóhannesdóttur og Ásu Karenar Ásgeirsdóttur.