„Skemmtileg þessi nýja stjórnmálahreyfing i Efstaleitinu. Kom á framfæri við okkur boðskap gamals vinstri róttæklings, sem fékk rúmlega 1% fylgi í frönsku forsetakosningunum, um að kjósa ekki núverandi stjórnarflokka.“ Þetta segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í stöðuuppfærslu á Facebook í dag. Þar er hann að kalla RÚV, sem hefur starfsemi sína í Efstaleiti, stjórnmálahreyfingu. „Gamli vinstri róttæklingurinn“ sem Brynjar skrifar um er Eva Joly, sem var í viðtali í Kastljósi í síðustu viku þegar hún var stödd hérlendis til að vera frummælandi á málþingi sem Píratar stóðu fyrir.
Gagnrýnir umfjöllun um neyðarlánasímtal
Brynjar gagnrýnir RÚV einnig fyrir að hafa komið „á framfæri við okkur eldgömlum upplýsingum úr Seðlabankanum ef við skyldum gleyma hverjir bæru nú ábyrgð á fjármálakreppu heimsins“ og spyr svo í kaldhæðni „Hvernig ætli það fjármagni sig þetta nýja og öfluga stjórnmálaafl?“
RÚV og fréttaskýringaþátturinn Kastljós hefur legið undir mikilli gagnrýni frá stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins fyrir að hafa fjallað um áður óbirtar upplýsingar um hið svokallaða neyðarlánasímtal sem átti sér stað milli Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og Davíðs Oddssonar, þáverandi formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, í október 2008. Á meðal þeirra sem hafa sett fram slíka gagnrýni er Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, sem telur að upplýsingum um málið hafi verið „plantað“ og að tilgangurinn hafi verið að hafa áhrif á komandi kosningar.
Nýjar upplýsingar um óupplýst mál
Neyðarlánaveitingin til Kaupþings hefur verið mikið til umfjöllunar á undanförnum átta árum. En eru margir fletir hennar óljósir og þeir sem að henni komu hafa ekki viljað opinbera símtalið þar sem hún var ákveðin til að varpa ljósi á þá fleti. Þá liggur ekki skýrt fyrir í hvað neyðarlánið fór. Sérstakur saksóknari hefur haldið því fram að það hafi verið notað í saknæma gjörninga en fyrrverandi stjórnendur Kaupþings hafna því alfarið og segjast hafa notað peninganna til að styrkja stöðu bankans.
Upplýsingarnar, sem komu úr fjögurra ára vitnaskýrslu sérstaks saksóknara, höfðu aldrei birst áður. Í skýrslunni var til að mynda að finna eftirrit úr símtalinu, en slíkt hefur aldrei áður komið fyrir sjónir almennings þar sem Geir hefur neitað að símtalið verði gert opinbert. Auk þess kom fram að Davíð Oddsson hafi vísvitandi tekið símtalið við Geir í gegnum síma undirmanns síns til að tryggja að það yrði hljóðritað og að Davíð hafi sagt við undirmanninn að hann teldi að neyðarlánið sem var verið að veita Kaupþingi, alls upp á 500 milljónir evra, myndi ekki endurgreiðast. Um var að ræða alla nettó gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans.
Hægt er að lesa ítarlega skýringu á öllum flötum neyðarlánamálsins hér.