Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að flokkurinn muni ekki mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum að loknum kosningum, sem fram fara eftir viku. Hún segir að það myndi ganga gegn samþykktum flokksþings Vinstri grænna að mynda slíka stjórn og fyrsti valkostur flokksins sé alltaf að mynda ríkisstjórn með öðrum stjórnarandstöðuflokkum. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.
Miklar umræður hafa verið um að Vinstri græn séu að halla sér að Sjálfstæðisflokknum og séu opin fyrir þeim möguleika að mynda ríkisstjórn með flokknum. Þær umræður fengu byr undir báða vængi þegar Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sagði frá í stöðuuppfærslu á Facebook í vikunni að Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður Vinstri grænna og oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi, hafi sagt á framboðsfundi í Grímsey „að fyrirhugað sé að mynda stjórn VG og Sjálfstæðisflokks.“ Steingrímur hefur sjálfur sagt að þetta sé þvættingur og borið málið til baka.
Katrín tilkynnti í gær í stöðuuppfærslu á Facebook að fulltrúar núverandi stjórnarandstöðuflokka: Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Bjartrar framtíðar, ætli að hittast á morgun, sunnudag, til að „fara yfir forgangsmál og ræða samstarfsfleti í framhaldi kosninga.“ Fundurinn mun fara fram á Litlu Lækjarbrekku.
Píratar héldu blaðamannafund fyrir sex dögum þar sem þeir tilkynntu um að þeir séu tilbúnir að hefja strax formlegar stjórnarmyndunarviðræður við aðra flokka út frá fimm megin áherslum Pírata til þess að geta lagt drög að stjórnarsáttmála áður en íslensk þjóð gengur til þingkosninga laugardaginn 29. október næstkomandi. Flokkurinn sagði að hann muni ekki taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi með þeim flokkum sem ekki geta skuldbundið sig til ákveðinna verka fyrir kosninga. Flokkarnir sem Píratar vildu hefja viðræður við eru fjórir og formenn þeirra allra fengu sent bréf þess efnis. Þeir eru Katrín Jakobsdóttir, Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar. Píratar vildu ræða við formennina í þessari röð.
Úr varð að einungis Samfylkingin vildi hitta Pírata undir þessum formerkjum og fór sá fundur fram í liðinni viku. Katrín Jakobsdóttir vildi að stjórnarandstöðuflokkarnir hittust allir saman og það verður að veruleika á morgun. Bæði Björt framtíð og Viðreisn höfnuðu gerð stjórnarsáttmála samkvæmt forskrift Pírata.