Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, er með bestu mætingu allra þingmanna í atkvæðagreiðslur á kjörtímabilinu, eða 98,5 prósent mætingu. Willum Þór er meira að segja með betri mætingu en Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sem er í öðru sæti á mætingarlistanum. Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, er með verstu mætinguna í atkvæðagreiðslur. Hann tók einungis þátt í 52,5 prósent þeirra á kjörtímabilinu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, kemur fast á hæla hans með einungis 56,7 prósent mætingu í atkvæðagreiðslur.
Þetta er meðal þess sem kemur fram á vefnum thingmenn.is sem settur hefur verið í loftið. Um er að ræða verkefni sem Bæring Gunnar Steinþórsson hefur unnið. Á vefnum geta kjósendur, og aðrir áhugasamir, fundið upplýsingar og tölfræði um þingmenn og þingflokka fyrir kjörtímabilið 2013-2016. Vefurinn sækir gögn af vef Alþingis sjálfkrafa og skiptir þeim niður í tvo meginflokka: atkvæðaskrár og ræður eftir þingum. Með þessari aðferð er hægt að vinna úr þeim og setja þau fram á hlutlausan máta.
Ögmundur tók síst afstöðu
Willum Þór er líka sá þingmaður sem oftast tekur afstöðu, eða í 94,3 prósent þeirra mála sem hafa komið fyrir þingið til atkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu. Það þarf kannski ekki að koma á óvart en stjórnarþingmenn taka mun frekar afstöðu en stjórnarandstöðuþingmenn, enda sitjandi ríkisstjórn með mjög rúman meirihluta og í aðstöðu til að koma þeim málum sem hún er sammála um í gegn þrátt fyrir andstöðu annarra flokka. Ögmundur Jónasson er sá þingmaður sem í lang fæst skipti tekur afstöðu, eða í 24,8 prósent þeirra mála sem greitt var atkvæði um. Ögmundur tók því einungis afstöðu í fjórða hverju máli á kjörtímabilinu. Hann greiddi samtals atkvæði 650 sinnum.
Sá sem tók afstöðu í næst fæst skipti er Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Hann tók afstöðu í 43,3 prósent mála og greiddi atkvæði alls 1.350 sinnum.
Steingrímur talaði mest en Framsókn minnst
Á vefnum er líka hægt að sjá hversu miklum tíma þingmenn eyddu í ræðustól og um hvað þeir töluðu mest. Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, talaði mest allra, eða samtals í 95,9 klukkustundir. Hann talaði oftast um sveitarfélag og fjármálaráðherra. Einungis einn stjórnarliði kemst á topp tíu listann yfir þá sem töluðu mest. Það er Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sem talaði samtals í 62,5 klukkustundir á kjörtímabilinu. Bjarni talaði mest um ríkissjóð og skatta.
Sjö af þeim sem töluðu minnst úr ræðustól Alþingis á kjörtímabilinu eru Framsóknarmenn. Þórunn Egilsdóttir fer fyrir þeim hópi, en hún talaði einungis í 4,7 klukkustundir á þeim árum sem kjörtímabilið hefur staðið yfir. Þórunn talaði því í fimm prósent af þeim tíma sem Steingrímur talaði. Hún ræddi oftast um einstaklinga eða sveitarfélög úr pontu.
Talað um heimili, sveitarfélög og þjóðina
Vefurinn býður líka upp á upplýsingar um hvað hver þingflokkur gerði á kjörtímabilinu. Þar má til að mynda sjá að þingflokkur Samfylkingarinnar mætti verst í atkvæðagreiðslur en þingflokkur Pírata, sem telur þrjá aðila, hlutfallslega best. Samfylkingin mætti í 72,9 prósent atkvæðagreiðslna á meðan að Píratar mættu í 90,3 prósent þeirra.
Þar má einnig sjá hvað þingflokkarnir töluðu mest um. Þingflokkur Framsóknarflokksins talaði mest um sveitarfélög og heimili. Hinn stjórnarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkur, talaði mest um sveitarfélög og fjárlög.
Hjá þremur stjórnarandstöðuflokkum var mest talað um þjóð. Þ.e. Samfylkingu, Pírötum og Bjartri framtíð. Vinstri grænir skáru sig úr þessum hópi og töluðu mest um sveitarfélög. En næst mest um þjóðina.