Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, vill að ríkisstjórnin setji bráðabirgalög strax í þessari viku til að koma í veg fyrir frekari tafir á vinnu við að tengja orku frá Þeistareykjum við Kröflu við iðnaðarsvæðið á Bakka. Í dag eru fimm dagar í kosningar. Þetta kemur fram í aðsendri grein eftir Sigmund Davíð í Morgunblaðinu í dag.
Þar ræðir hann um þá stórsókn í byggðarmálum sem ráðist hefði verið í ef kjörtímabilið hefði ekki verið stytt og fjárlög fyrir árið 2017 lögð fram af ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Sigmundur Davíð segir að stjórnmálamenn verði að hafa þor til að beita sér fyrir því að ríkisvaldið liðki fyrir uppbyggingu á sviði iðnaðar utan höfuðborgarsvæðisins. „Nýleg dæmi sýna að ekki aðeins hefur kerfið tilhneigingu til að þvælast fyrir því að slík verkefni fari af stað, það getur jafnvel gripið inn í til að stöðva stór og mikilvæg verkefni sem eru þegar farin af stað. Ríkisstjórnin þarf strax í þessari viku að setja bráðabirgðalög svo hægt sé að halda áfram vinnu við að tengja Þeistareyki við Kröflu og uppbygginguna á Bakka. Ella geta getur því mikilvæga verkefni verið stefnt í óvissu mánuðum saman og það jafnvel sett í uppnám fyrir vikið.“
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála stöðvaði framkvæmdir vegna lagningu á raflínu frá Þeistareykjum og Kröflusvæðinu að iðnaðarsvæðinu á Bakka í ágúst. Ástæðan var kæra Landverndar vegna málsins. Niðurstaða nefndarinnar á að liggja fyrir um miðjan október.
Það þótti hins vegar of langur tími til að bíða eftir slíkri niðurstöðu og því ákvað ríkisstjórnin að leggja fram frumvarp um að kæruferlið yrði stöðvað og framkvæmdum áframhaldið. Áður en frumvarpið fékk afgreiðslu kom niðurstaða nefndarinnar fram og því varð samþykkt þess aldrei að veruleika.
Í honum felldi úrskurðarnefndin úr gildi framkvæmdaleyfi sem Skútustaðahreppur hafði veitt Landsneti vegna Kröflulínu 4.