ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hefur ekki fengið neinar upplýsingar frá íslenskum stjórnvöldum um það hvort stjórnvöld séu byrjuð að endurheimta ólögmæta ríkisaðstoð, sem þeim var gert að gera fyrir rúmum tveimur árum síðan.
Þetta kemur fram í svari ESA við fyrirspurn Kjarnans um málið. Í lok júlí síðastliðins var Ísland dæmt fyrir að endurheimta ekki ríkisaðstoð til fimm fyrirtækja, Becromal, Verne, Íslenska kísilfélagsins, Thorsil og GMR Endurvinnslunnar. Fyrir rúmum tveimur árum síðan komst ESA að þeirri niðurstöðu að samningar um ívilnun sem voru gerðir við þessi fyrirtæki hafi falið í sér ólögmæta ríkisaðstoð. Íslenskum stjórnvöldum var gert að stöðva allar frekari greiðslur til þessara fyrirtækja og sjá til þess að öll aðstoðin yrði endurgreidd innan fjögurra mánaða.
Sá frestur rann út þann 9. febrúar í fyrra. Þá var íslenskum stjórnvöldum gert að tilkynna eftirlitsstofnuninni hver heildarfjárhæð ólögmætrar ríkisaðstoðar hefði verið veitt og tilkynna hvernig íslenska ríkið hygðist endurheimta þessa fjárhæð. Það var aldrei gert.
Því var íslenska ríkinu stefnt fyrir EFTA dómstólinn, og hann komst að þeirri niðurstöðu í sumar að Ísland hefði gerst brotlegt. Atvinnuvegaráðuneytið gerði lítið úr dóminum í fréttatilkynningu sem það sendi frá sér um málið þegar dómurinn lá fyrir. Þar kom aðeins fram að EFTA dómstóllinn hafi átalið drátt á endurheimt. Þá sagði ráðuneytið að íslensk stjórnvöld hafi unnið að lausn málsins undanfarna mánuði í samráði við umrædd fyrirtæki og stefnt væri að því að ljúka málunum á allra næstu vikum. Það var þann 29. júlí síðastliðinn.
Íslensk stjórnvöld vissu allan tímann að þau hefðu gerst brotleg með ívilnunarsamningunum en sinntu því ekki að endurheimta aðstoðina, að því er fram kom í dómi EFTA dómstólsins. Stjórnvöld hafi ekki lagt fram neinar sannanir fyrir því fyrir dómi að samningarnir hafi verið ógildir eða að greiðslum til fyrirtækjanna hafi verið hætt. Þá hafi Ísland ekki sýnt fram á nákvæmar upphæðir sem ætti að endurheimta né heldur hvernig stæði til að standa að endurheimtunum.
Í viðtali við Kjarnann í ágúst sagði Gjermund Mathiesen, yfirmaður samkeppnismála hjá ESA að endurheimtur á ólögmætri ríkisaðstoð væru orðnar að viðvarandi vandamáli á Íslandi og stofnunin hefði áhyggjur af stöðu mála hérlendis.
Íslensk stjórnvöld héldu því fram fyrir dómi að upphæðirnar sem um ræðir séu mjög litlar. Mathiesen segir að upphæðirnar hafi vissulega ekki verið mjög háar, en það veki einmitt upp áhyggjur af því hvað myndi gerast í stærri málum. „Myndi þá taka ennþá lengri tíma að endurheimta ríkisaðstoðina? Það er það sem við höfum miklar áhyggjur af.“