Ráðherranefnd um efnahagsmál fundaði í morgun með Má Guðmundssyni seðlabankastjóra vegna auglýsinga frá kröfuhafvarðhundinum Iceland Watch, sem birst hafa í íslenskum fjölmiðlum að undanförnu. Í auglýsingunum er varað við áhrifum þess að snúa ekki við lagasetningu sem skikkar aflandskrónueigendur til að gefa eftir hluta eigna sinna eða festast annars inn á vaxtalausum reikningum í Seðlabanka Íslands.
Í yfirlýsingu frá ráðherranefndinni, sem í sitja forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, innanríkis- og utanríkisráðherra, er þeim rangfærslum sem birtast í auglýsingunum mótmælt. „ Ljóst er að erlendir aðilar, sem telja sig hafa hagsmuni af því að ráðstöfunum um meðferð aflandskróna verði breytt, standa að baki þessum auglýsingum, þar sem einnig er vegið með ósmekklegum hætti að starfsheiðri tiltekinna starfsmanna Seðlabanka Íslands. Einstakir stærri aflandskrónueigendur hafa að undirförnu freistað þess að hafa áhrif á alþjóðlegar stofnanir, lánshæfismatsfyrirtæki og almenna fjölmiðlaumfjöllun en orðið lítið ágengt. “
Birtu heilsíður víða
Auglýsingarnar sem um ræðir eru frá Iceland Watch, sem rekið er af hugveitunni Institute for Liberty.
IcelandWatch.org verkefnið vakti fyrst athygli hérlendis þegar það keypti birtingar á Twitter til að koma boðskap sínum á framfæri. Augljóst er að tilgangurinn er að gæta hagsmuna erlendra kröfuhafa sem neituðu að taka þátt í aflandskrónuuppboði Seðlabanka Íslands í sumar sökum þess að þeim fannst gengið sem þar var í boði fyrir skuldabréf þeirra ekki nógu hátt. Þess í stað voru eignir þeirra settar inn á vaxtalausa reikninga. Það var hægt vegna sérstakra laga sem Alþingi setti í aðdraganda útboðanna. Lagasetningin var rökstudd með því að aðgerðirnar þættu nauðsynlegar til að stuðla að greiðslujafnvægi í íslenska efnahagskerfinu og verja stöðugleika landsins.
Þann 14. október síðastliðinn birtust síðan heilsíðuauglýsingar í bæði Fréttablaðinu og Morgunblaðinu frá Iceland Watch. Auglýsingarnar birtust einnig á á dönsku í dönskum fjölmiðlum, m.a. viðskiptablaðinu Börsen, og á ensku í bandarískum fjölmiðlum.
Í auglýsingunni voru Íslendingar varaðir við því að mismuna alþjóðafjárfestum. Þar sagði:„Við höfum séð þetta áður. Þegar kærulaus stjórnvöld fyrirgera réttarríkinu hverfur erlend fjárfesting og landsmenn gjalda fyrir það. Á Íslandi mismuna ný lög alþjóðlegum fjárfestum og neyða þá til að selja skuldabréf sem tryggð eru í krónum með miklum afslætti, eða til að láta eignir sínar á reikninga sem bera enga vexti. Tölum skýrt: Svívirðileg ný lög landsins mismuna fjárfestum eftir þjóðerni þeirra. Frekar en að halda áfram viðræðum við alþjóðlega fjárfesta sem reynt hafa að ná samningum í góðri trú hefur Ísland stillt þeim upp við vegg.“
Ný auglýsing með Má í aðalhlutverki
Síðustu tvo daga hefur Iceland Watch svo birt nýja auglýsingu í Morgunblaðinu. Nú var hún með mynd af Má Guðmundssyni seðlabankastjóra og spurt hver „greiði fyrir spillingu og mismununarreglur á Íslandi“ og sagt að lesendur gerðu það. Þar var einnig spurt hvort Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri hjá Seðlabankanum, hafi „notað þekkingu sína á nýlega tilkynntri löggjöf um gjaldeyrishöft sem mismunar erlendum fjárfestum um að stunda innherjaviðskipti“.
Í auglýsingunni var því haldið fram að mismununarstefna íslenskra íslensku gjaldeyrishaftanna hafi kostað hvern Íslending á bilinu 1,7 til 3,1 milljón króna. Þetta hafi komið fram í „nýrri rannsókn“ sem er þó ekki tiltekið hver hafi framkvæmt eða hvernig.
Iceland Watch reyndi einnig að fá auglýsinguna birta í Fréttablaðinu en blaðið neitaði að gera það.
Keimlíkt málflutningi vogunarsjóða
Tveir bandarískir sjóðir, Eaton Vance Corp. og Autonomy Capital LP, sættu sig ekki við að eignir þeirra hafi verið settar inn á nær vaxtalausa reikninga í refsingarskyni fyrir að taka ekki þátt í útboðunum. Þess í stað fólu sjóðirnir lögmanni sínum að kanna grundvöll fyrir mögulegri málshöfðun á hendur íslenska ríkinu auk þess sem þeir hafa kvartað til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna lagasetningar sem samþykkt voru aðfaranótt 23. maí síðastliðins, og þeir telja að feli í sér eignarupptöku og brot á jafnræðisreglu. Fyrsta skrefið í þeirri viðleitni var að fara fram á það við héraðsdóm Reykjavíkur að sérfræðingar verði skipaðir til að fara yfir lögmæti þeirra aðgerða sem framkvæmdar voru gegn aflandskrónueigendum með lögum sem samþykkt voru fyrr á þessu ári.
Íslenska ríkið hefur reynt að koma í veg fyrir að héraðsdómur Reykjavíkur skipi sérfræðinga til að meta hvort ríkið hefði efnahagslegar forsendur fyrir því að neita að skipta aflandskrónum sjóðanna tveggja á lægra verði en markaðsverði, líkt og Kjarninn hefur greint frá.
Málflutningur IcelandWatch.org er keimlíkur málflutningi vogunarsjóðanna tveggja.