Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ætlar að funda með forystumönnum allra flokka sem fengu fulltrúa á Alþingi í kosningunum í gær. Hann mun gera það á morgun og ætlar að byrja á að funda með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn, fékk flest þingsæti, 21, og 29% fylgi í kosningunum.
Forsetinn fundar með formönnum flokkanna í röð eftir því hversu mikið fylgi þeir hlutu. Næst á eftir Bjarna mun Guðni funda með Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, þá Birgittu Jónsdóttur, Smára McCarthy og Einari Aðalsteini Brynjólfssyni frá Pírötum. Svo mun hann funda með Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins og þá Benedikt Jóhannessyni, formanni Viðreisnar. Svo mun hann funda með Óttarri Proppé, formanni Bjartrar framtíðar og loks Oddnýju Harðardóttur, formanni Samfylkingarinnar.
Fyrsti fundurinn verður klukkan 10 í fyrramálið og sá síðasti klukkan fjögur seinni partinn á morgun.