Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, segir átök á flokksþingi flokksins í byrjun október, þar sem hann tapaði formannskosningu, vera ástæðu þess að Framsóknarflokkurinn tapaði jafn miklu fylgi og raun ber vitni í kosningunum um helgina. Hann segist hafa hitt fjölda fólks sem sagðist ekki geta kosið Framsóknarflokkinn vegna átakana á flokksþinginu. Sjálfstæðismenn hafi hins vegar staðið saman í kosningabaráttunni og það hafi skilað þeim flokki miklu. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Í Fréttablaðinu segir Sigmundur Davíð að hann hefði getað tryggt flokknum 18 til 19 prósent atkvæða í kosningunum ef hann hefði verið formaður. „Ég var búinn að leggja drög að því hvernig með öflugri kosningabaráttu hefðum við getað hækkað fylgið um kannski fjögur prósentustig og svo kannski tvö í viðbót í kosningunum sjálfum. Við hefðum þá getað gert ráð fyrir 18 til 19 prósenta fylgi.“
Framsóknarflokkurinn hefur aldrei fengið hlutfallslega færri atkvæði í alþingiskosningum í 100 ára sögu sinni og hann fékk á laugardag. Alls fékk flokkurinn 11,5 prósent atkvæða og átta þingmenn, en hafði fengið 24,4 prósent árið 2013 og 19 þingmenn. Versta niðurstaða flokksins fyrir þessa var árið 2007 þegar Jón Sigurðsson stýrði flokknum og hann fékk 11,7 prósent atkvæða. Þá fékk flokkurinn hins vegar færri þingmenn, eða sjö.
Ástæða þess að kosið var nú í október, en ekki næsta voru þegar kjörtímabilinu átti að ljúka, var hið svokallaða Wintris-mál og vera annarra ráðherra ríkisstjórnarinnar í Panama-skjölunum sem opinberuð voru í byrjun apríl síðastliðnum. Wintris-málið snérist um að Sigmundur Davíð hafi átt félag á aflandseyjunni Tortóla til helminga gegn eiginkonu sinni. Í félaginu eru miklar eignir, þótt að ekki hafi verið greint frá því opinberlega nákvæmlega hverjar þær eru. Félagið var einnig kröfuhafi í slitabú föllnu bankanna. Sigmundur Davíð var spurður út í félagið í sjónvarpsþætti 3. apríl 2016 og þar sagði hann ósátt um tilurð þess og tilgang. Hann rauk síðan út úr viðtalinu. Daginn eftir mættu 26 þúsund manns á stærstu mótmæli Íslandssögunnar fyrir framan Alþingi og þriðjudaginn 5. apríl sagði Sigmundur Davíð af sér sem forsætisráðherra.
Hann snéri síðan aftur í stjórnmál í lok júlí og reyndi að koma í veg fyrir að kosningar yrðu haldnar í haust. Hann reyndi einnig að koma í veg fyrir að flokksþing Framsóknarflokksins yrði haldið í aðdraganda kosninga en hvorugt gekk eftir. Á flokksþinginu bauð Sigurður Ingi Jóhannsson sig fram til formennsku í Framsóknarflokknum gegn Sigmundi Davíð og sigraði.