Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fær stjórnarmyndunarumboð frá forseta Íslands. Þetta tilkynnti forsetinn, Guðni Th. Jóhannesson, á fundi með blaðamönnum rétt í þessu.
Með þessu er hann ekki að útnefna forsætisráðherra, sagði forsetinn, heldur aðeins að hjálpa við að flokkar myndi ríkisstjórn, og myndun ríkisstjórnar sé alfarið stjórnmálaflokka. Hann ákvað að þessi kostur væri vænlegastur til árangurs og vænlegasta leiðin til myndunar ríkisstjórnar, ekki síst vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé stærstur flokka á þingi.
Hann var búinn að ræða við alla flokksformenn og hafði fylgst með því sem fram hefur komið í fjölmiðlum, lyktirnar voru ekki augljósar en þetta er líklegast til árangurs, sagði Guðni á fundinum.
Forsetinn sagði engar skýrar línur hafa myndast í viðræðum hans við formenn allra flokka á mánudaginn. Það hafi verið skiptar skoðanir um það hver ætti að fá stjórnarmyndunarumboðið. Í gær hafi hann svo rætt við Bjarna, Katrínu Jakobsdóttur formann VG og Benedikt Jóhannesson formann Viðreisnar.
Nú er þess beðið að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ræði við fjölmiðla.