Systurnar Malín Brand og Hlín Einarsdóttir hafa verið ákærðar í fjárkúgunarmáli. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur eftir tæpan hálfan mánuð. Frá þessu var greint frá RÚV.
Systurnar voru handteknar í aðgerðum lögreglunnar í byrjun júní í fyrra, en þær höfðu, samkvæmt tilkynningu frá lögreglu, sent bréf heim til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherra, og krafist þess að hann greiddi þeim tiltekna upphæð.
Þegar systurnar komu á staðinn, við Vallarhverfið í Hafnarfirði, voru þær handteknar. Þar átti afhending peninganna að fara fram. Í tilkynningu lögreglunnar kom jafnframt fram að þær hefðu játað við yfirheyrslu að hafa sent bréfið heim til þáverandi forsætisráðherra.
Málið hófst með því að bréf var sent á heimili þáverandi forsætisráðherra þar sem hann var krafinn um átta milljónir króna ella yrðu upplýsingar sem í bréfum voru taldar viðkvæmar fyrir hann gerðar opinberar.
Málið allt hefur verið hálfreyfarakennt enda fordæmalaust með öllu.
Ekki hefur verið greint frá því í smáatriðum í hverju hótunin fólst, en samkvæmt því sem kom fram þegar málið komst í hámæli, þá áttu upplýsingarnar að tengja Sigmund Davíð við lánafyrirgreiðslu sem Vefpressan, fjölmiðlafyrirtæki Björns Inga Hranfssonar, fékk frá MP banka. Hlín var um tíma sambýliskona Björns Inga, en Malín hefur haldið fram, meðal annars í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér, að hún hefði ekki átt frumkvæðið að málinu og hef flækst inn í það.