Það er krafa stuðningsmanna Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar innan Framsóknarflokksins að ef flokkurinn ætli í ríkisstjórnarsamstarf þá verði eina leiðin til sátta við þá að gera Sigmund Davíð að ráðherra. Þetta segir Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur, við Morgunblaðið í dag. Hann segir enn fremur að eina manneskjan til að sætta andstæðar fylkingar í flokknum sé Lilja Alfreðsdóttir, nýkjörinn varaformaður hans.
Anna Kolbrún Árnadóttir, formaður Landssambands framsóknarkvenna, segir að hún sé á því að völdum í flokknum hafi verið rænt. „Það voru ekki nema 40 atkvæði sem skildu Sigmund Davíð og Sigurð Inga að og þarna mætti fólk og tók þátt í atkvæðagreiðslunni sem ég hef ekki séð um langan tíma í flokksstarfinu. Það eru engar sættir á leiðinni meðal flokksmanna. Ég mun því íhuga mína stöðu. Ég veit að formaður og varaformaður flokksins gera allt sem þeir geta til að komast í ríkisstjórn en það er mín persónulega skoðun að við eigum ekki að gera það.“
Segja hóp hafa hvatt til útstrikana
Framsóknarflokkurinn fékk verstu útkomu í 100 ára sögu sinni í síðustu kosningunum þegar hann fékk 11,5 prósent fylgi. Í kosningunum 2013 hafði hann fengið 24,4 prósent. Sigmundur Davíð hefur sagt að átökin á flokksþingi, þegar hann var felldur sem formaður, sé helsta ástæða þess að flokkurinn hefði tapað svona miklu fylgi. Framsóknarflokkurinn hefði fengið 18-19 prósent atkvæða ef hann hefði enn verið formaður.
Sigmundur Davíð var sá stjórnmálamaður í framboði sem var strikaður oftast út allra í nýliðnum kosningum. Alls strikuðu 18 prósent kjósenda Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi hann út og einungis munaði nokkrum tugum atkvæða á að útstrikanir nægðu til að fella hann niður um sæti. Sigmundur Davíð sagði að hópur fólks innan flokksins hafi ákveðið að verja kosningabaráttunni til að hvetja til útstrikana á honum fremur en að afla flokknum fylgis.
Anna Kolbrún segir við Morgunblaðið að það sé „fótur fyrir því“ að fólk hafi verið hvatt til að strika út Sigmund Davíð í nýliðnum kosningum þegar það kaus Framsóknarflokkinn í Norðausturkjördæmi. Páll Marís Pálsson, formaður Sambands ungra framsóknarmanna, segist hins vegar ekki hafa trú á að staðið hafi verið kerfisbundið að því að strika út nafn Sigmundar Davíðs.
Brött brekka Sigmundar Davíðs frá því í apríl
Ástæða þess að kosið var nú í október, en ekki næsta voru þegar kjörtímabilinu átti að ljúka, var hið svokallaða Wintris-mál og vera annarra ráðherra ríkisstjórnarinnar í Panama-skjölunum sem opinberuð voru í byrjun apríl síðastliðnum. Wintris-málið snerist um að Sigmundur Davíð hafi átt félag á aflandseyjunni Tortóla til helminga gegn eiginkonu sinni. Í félaginu eru miklar eignir, þótt að ekki hafi verið greint frá því opinberlega nákvæmlega hverjar þær eru. Félagið var einnig kröfuhafi í slitabú föllnu bankanna. Sigmundur Davíð var spurður út í félagið í sjónvarpsþætti 3. apríl 2016 og þar sagði hann ósátt um tilurð þess og tilgang. Hann rauk síðan út úr viðtalinu. Daginn eftir mættu 26 þúsund manns á stærstu mótmæli Íslandssögunnar fyrir framan Alþingi og þriðjudaginn 5. apríl sagði Sigmundur Davíð af sér sem forsætisráðherra.
Hann snéri síðan aftur í stjórnmál í lok júlí og reyndi að koma í veg fyrir að kosningar yrðu haldnar í haust. Hann reyndi einnig að koma í veg fyrir að flokksþing Framsóknarflokksins yrði haldið í aðdraganda kosninga en hvorugt gekk eftir. Á flokksþinginu bauð Sigurður Ingi Jóhannsson sig fram til formennsku í Framsóknarflokknum gegn Sigmundi Davíð og sigraði.
Framsóknarflokkurinn reynir nú hvað hann getur að komast í ríkisstjórn. Í þeim viðræðum þá kynna forsvarsmenn hans sig, samkvæmt heimildum Kjarnans, sem sjö manna þingflokk en ekki átta. Með fylgir vilyrði um að Sigmundur Davíð muni ekki með neinum hætti hafa aðkomu að þeirri ríkisstjórn sem Framsókn myndi setjast í.