Þingmönnum ber að virða og standa við ákvörðun Breta um að yfirgefa Evrópusambandið, segir Brexit-ráðherrann David Davis við breska þingið. BBC greinir frá. Yfirlýsing Davis eru opinber viðbrögð stjórnvalda við þeim úrskurði dómstóls í London að ekki sé hægt að virkja 50. grein Lissabon-sáttmálans og hefja útgöngu úr Evrópusambandinu án þess að bera það undir breska þingið fyrst.
Stjórnvöld ætla að áfrýja úrskurðinum til Hæstaréttar, en talið hefur verið að hvernig sem fer hafi málið tafið fyrir ferlinu. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt að hún vilji hefja útgönguferlið fyrir lok mars á næsta ári. Það er gert með því að virkja 50. greinina, með bréfi til leiðtogaráðs ESB.
Verkamannaflokkurinn, sem er í stjórnarandstöðu í breska þinginu, segir að hann muni ekki reyna að stöðva eða tefja fyrir útgöngunni ef svo fer að þingið þurfi að kjósa um málið. Skuggaráðherra flokksins í útgöngumálum, Keir Starmer, segir að það verði að halda atkvæðagreiðslu í þinginu, það sé það rétta fyrir fullveldið.
Skuggaráðherra Skotlands og Skoska þjóðernisflokksins, Michael Russell, segir hins vegar að hann sjái ekki fyrir sér neinar kringumstæður þar sem þingmenn flokksins kjósi með því að virkja 50. greinina. Skotar kusu gegn útgöngu úr ESB.