Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands hefur sent Donald Trump, nýkjörnum forseta Bandaríkjanna, heillaóskir frá sér og íslensku þjóðinni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsetaembættinu.
Í kveðjunni lagði Guðni áherslu á rótgróna samvinnu og vináttu Íslands og Bandaríkjanna og sameiginlega sögu þjóðanna „sem teygði anga sína allt aftur til þess að sæfarendur frá Íslandi og Grænlandi tóku land í Norður-Ameríku fyrir meira en þúsund árum.“
Guðni nefndi einnig í heillaóskum sínum til Trumps að jafnvel þó stærðarmunurinn á milli Bandaríkjanna og Íslands væri mjög mikill þá deila þessar þjóðir mörgum mikilvægum gildum. „[…] við styðjum einhuga frelsi til hugsana og tjáningar, jafnrétti kynjanna og höfum í hávegum jafnan rétt allra þegna óháð litarhafti eða trú.“
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra sendi frá sér heillaóskir fyrr í dag og sagðist vera bjartsýnn á framhaldið. Hann segist eiga von á því að samskipti landanna verði jafn góð eins og verið hafa og verði það áfram, og hann hefur engar væntingar til annars.