Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, segist vonast til þess að Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, verði farsæll forseti. Hún segir úrslitin í forsetakosningunum í gær ekki hafa verið þau sem hún hefði vonast eftir eða viljað, og henni þyki það leitt að hafa tapað.
„Ég veit hversu vonsvikin þið eruð af því að ég er það líka,“ sagði hún meðal annars við stuðningsmenn sína í fyrstu ræðunni eftir að ljóst varð að hún tapaði forsetakosningunum. „Þetta er sársaukafullt og það mun vera það um langa hríð.“ Veruleikinn væri sá að Trump yrði forseti og það þyrfti að gefa honum tækifæri til að sanna sig.
Clinton lagði áherslu á gildin sem hún og Demókrataflokkurinn stæðu fyrir, frelsi og jafnrétti. Það þyrfti að gera allt til að tryggja jöfn réttindi og vernda þyrfti landið og líka alla jörðina. Nú væri það skylda þeirra sem borgara að gera sitt til að byggja sterkari og réttlátari Bandaríki. „Við trúum því að bandaríski draumurinn sé nógu stór fyrir alla.“ Karla og konur, fólk af ólíkum kynþáttum, með ólíkar kynhneigðir og svo framvegis.
„Ég er stolt og þakklát fyrir þessa frábæru kosningabaráttu sem við háðum saman. Þið eruð dæmi um það besta í Bandaríkjunum og að vera ykkar frambjóðandi er einhver mesti heiður sem mér hefur hlotnast í lífinu.“
Clinton sagði einnig að baráttan hafi aldrei snúist um eina manneskju eða einar kosningar, heldur um gildi Bandaríkjanna. Það hafi komið í ljós að bandaríska þjóðin sé enn klofnari en hún og hennar fólk hafi haldið.
Hún þakkaði fjölskyldu sinni og varaforsetaefni sínu, og öllu sínu teymi og stuðningsmönnum. Þá þakkaði hún forsetahjónunum Barack og Michelle Obama fyrir þeirra störf í átta ár. „Landið okkar stendur í mikilli þakkarskuld við ykkur.“ Hún talaði sérstaklega til ungs fólks og kvenna. Hún sagðist hafa varið öllu sínu lífi í baráttu fyrir betri heimi og því fylgdu bæði sigrar og töp. „Þetta er sársaukafullt, en gerið það, aldrei hætta að trúa því að baráttan fyrir því sem er rétt sé þess virði.“
Við konur sagði hún að ekkert hefði gert hana stoltari en að vera fulltrúi þeirra og brautryðjandi. „Ég veit að við erum ekki búnar að brjóta þetta hæsta glerþak í heimi, en einhvern tímann gerist það og vonandi fyrr en seinna.“