Stjórnarmanni í Klakka, áður Exista, var falið að opna tilboð í hlut Lindarhvols, eignaumsýslufélags ríkisins, í félaginu. Heimasíðan Lindahvolleignir.is – en gerð tilboð voru send á netfang tengt henni – er enn fremur skráð á lögfræðistofu stjórnarmannsins, Steinars Þórs Guðgeirssonar. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir að tilboðin hafi verið send inn á þannig formi að viðtakandi þeirra var gert kleift að sjá innihald þeirra um leið og þau bárust. Ekkert í ferlinu tryggði að innihald tilboðanna héldist óaðgengilegt þar til að tilboðsfrestur væri runninn út. Í starfsreglum stjórnar Lindarhvols segir meðal annars að tilgangur þeirra sé að auka gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni, koma í veg fyrir hagsmunaárekstra, auka trúverðugleika félagsins og stuðla að óhlutdrægni við meðferð og afgreiðslu mála.
Steinar Þór Guðgeirsson var formaður skilanefndar Kaupþings um nokkura ára skeið. Á undanförunm árum hefur Steinar unnið sem ráðgjafi fyrir Seðlabanka Íslands og situr meðal annars í stjórnum margra félaga sem voru framseld til ríkisins í byrjun þessa árs sem hluti af stöðugleikaframlagi kröfuhafa gömlu bankanna. DV greindi til að mynda frá því í apríl að Steinar hefði fengið það hlutverk að gæta
hagsmuna íslenska ríkisins samhliða söluferli á 87 prósent hlut Kaupþings í Arion banka sem sérstakur eftirlitsmaður inni í Kaupþingi.
Ríkið seldi vogunarsjóði
Stjórn Lindarhvols, eignarhaldsfélags í eigu íslenska ríkisins, samþykkti í lok október að selja 17,7 prósent hlut ríkisins í Klakka, sem hét áður Exista, til vogunarsjóðsins Burlington Loan Management. Eftir viðskiptin á Burlington um 75 prósent hlut í Klakka, en helsta eign félagsins í dag er fjármögnunarfyrirtækið Lýsing. Burlington, sem var einn umsvifamesti kröfuhafi föllnu bankanna og keypti gríðarlegt magn af kröfum á þá á eftirmarkaði fyrir lágar fjárhæðir, greiddi 505 milljónir króna fyrir hlut ríkisins í Klakka. Alls bárust þrjú tilboð í hlutinn. Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, oftast kenndir við Bakkavör, buðu næsthæst, 501 milljón króna, í hann. Þeir voru aðaleigendur Existu fyrir hrun.
Lindarhvoll, sem tók við stöðugleikaframlagseignum ríkisins, auglýsti til sölu eignir í umsýslu félagsins í lok september. Það vakti athygli, enda mánuður í kosningar þegar eignirnar voru auglýstar til sölu.
Burlington gerði öðrum hluthöfum Klakka yfirtökutilboð. Smærri hluthafar, sem áttu hlut sem er verðmetinn á undir 2.000 evrur, myndu skulda bandaríska fyrirtækinu Wilmington Trust fé ef þeir myndu ganga að yfirtökutilboði Burlington Loan Management í hluti þeirra. Ástæðan er sú að Wilmington Trust, sem sér um umsýslu á kröfum og hlutabréfum fyrir Klakka, rukkar 2000 evrur, um 248 þúsund krónur, í umsýslugjald fyrir að sjá um framsal á eignarhlutunum.