Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að hægt verði að finna lausn á Evrópusambandsmálum i stjórnarmyndunarviðræðum við Viðreisn og Bjarta framtíð með því að leggja „málið frekar inn til þingsins“. Með þeim hætti sé hægt að finna lausn á því í ljósi þess að talsvert beri á milli flokkanna í afstöðu til Evrópusambandsins. Frá þessu er greint á mbl.is.
Samkvæmt heimildum Kjarnans snýst sú lausn sem Sjálfstæðismenn geta sætt sig við í því að ákvörðunin um hvort að farið verði í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið verði sett fyrir Alþingi. Þar sé meirihluti flokka á móti aðild – en bæði Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn eru með þá afstöðu – og andstæðingar aðildar vonast til að sá meirihluti muni hafna þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er þó alls ekki víst að Vinstri græn muni hafna slíkri og skemmst er að minnast þess að Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, var á meðal flutningsmanna þingsályktunartillögu í mars í fyrra þar sem lagt var til að þjóðaratkvæðagreiðsla um málið myndi fara fram í september 2015. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, skrifaði umsögn um þingsályktunartillöguna þar sem hann reifaði svik Sjálfstæðisflokksins í málinu og sagðist styðja það.
Í kosningabaráttunni sagðist Katrín enn fremur opin fyrir því að í þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópumál yrði spurt að tveimur spurningum: annars vegar hvort að fara ætti inn í sambandið og hins vegar hvort að halda ætti áfram viðræðum.
Andstæðir pólar í Evrópumálum
Það er yfirlýst stefna Sjálfstæðisflokksins að ganga ekki inn í Evrópusambandið og flokkurinn stóð að því að draga umsókn Íslands að því til baka ásamt Framsóknarflokki á síðasta kjörtímabili. Fjórir af þeim sex þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem leiddu kjördæmi flokksins fyrir síðustu kosningar, þar á meðal formaðurinn Bjarni Benediktsson, höfðu hins vegar lofað því að áframhald viðræðna um aðild að Evrópusambandinu yrði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu. Allir fjórir urðu síðar ráðherrar í þeirri ríkisstjórn sem tók við völdum vorið 2013. Engir fyrirvarar um meirihluta á Alþingi, meirihluta innan ríkisstjórnar eða sýnilegan þjóðarvilja í skoðanakönnunum voru settir fram. Bjarni Benediktsson sagði það reyndar oftar en nokkur annar Sjálfstæðismaður að þjóðaratkvæðið myndi fara fram og að flokkur hans myndi standa við það. Þegar kom að því að draga umsóknina til baka, og gera þá án þjóðaratkvæðagreiðslu, bar Bjarni fyrir sig „pólitískan ómöguleika“ þess að halda slíka í ljósi þess að báðir þáverandi stjórnarflokkar voru andvígir aðild. Við þá línu hefur Sjálfstæðisflokkurinn haldið sig alla tíð síðan.
Viðreisn varð til út úr þeim óróleika og mótmælum sem fylgdu því að draga aðildarumsóknina til baka. Hópur alþjóðasinnaðra Sjálfstæðismanna hóf að undirbúa myndun nýs stjórnmálaafls strax í apríl 2014. Eitt helsta stefnumál Viðreisnar hefur alla tíð verið að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um hvort viðræðum við Evrópusambandið verði haldið áfram. Á því máli hefur verið talið að flokkurinn geti ekki gefið afslátt.
Björt framtíð er sömuleiðis með Evrópusambandsaðild á sinni stefnuskrá.