Evrópumálin eru helsti ásteytingarsteinninn í viðræðum Sjálfstæðisflokks annars vegar og Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hins vegar um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur myndast umræðugrundvöllur fyrir breytingar í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum sem allir aðilar geta sætt sig við að byggja formlegar umræður á en í Evrópumálum virðist enginn tilbúinn að gefa neitt eftir.
Það er yfirlýst stefna Sjálfstæðisflokksins að ganga ekki inn í Evrópusambandið og flokkurinn stóð að því að draga umsókn Íslands að því til baka ásamt Framsóknarflokki á síðasta kjörtímabili. Fjórir af þeim sex þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem leiddu kjördæmi flokksins fyrir síðustu kosningar, þar á meðal formaðurinn Bjarni Benediktsson, höfðu hins vegar lofað því að áframhald viðræðna um aðild að Evrópusambandinu yrði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu. Allir fjórir urðu síðar ráðherrar í þeirri ríkisstjórn sem tók við völdum vorið 2013. Engir fyrirvarar um meirihluta á Alþingi, meirihluta innan ríkisstjórnar eða sýnilegan þjóðarvilja í skoðanakönnunum voru settir fram. Bjarni Benediktsson sagði það reyndar oftar en nokkur annar Sjálfstæðismaður að þjóðaratkvæðið myndi fara fram og að flokkur hans myndi standa við það. Þegar kom að því að draga umsóknina til baka, og gera þá án þjóðaratkvæðagreiðslu, bar Bjarni fyrir sig „pólitískan ómöguleika“ þess að halda slíka í ljósi þess að báðir þáverandi stjórnarflokkar voru andvígir aðild. Við þá línu hefur Sjálfstæðisflokkurinn haldið sig alla tíð síðan og enginn vilji virðist til að gefa neitt eftir varðandi hana.
Viðreisn varð til út úr þeim óróleika og mótmælum sem fylgdu því að draga aðildarumsóknina til baka. Hópur alþjóðasinnaðra Sjálfstæðismanna hóf að undirbúa myndun nýs stjórnmálaafls strax í apríl 2014. Eitt helsta stefnumál Viðreisnar hefur alla tíð verið að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um hvort viðræðum við Evrópusambandið verði haldið áfram. Á því máli getur flokkurinn ekki gefið afslátt. Björt framtíð er sömuleiðis með Evrópuaðild á sinni stefnuskrá.
Forsvarsmenn flokkanna tveggja funduðu með Bjarna Benediktssyni í gær á fundi sem hófst klukkan 13. Hann skilaði engri niðurstöðu. Rætt verður aftur saman í dag og í kjölfarið á að taka afstöðu til þess hvort látið verði reyna á formlegar viðræður um myndun 32 manna meirihlutastjórnar flokkanna þriggja eða ekki. Flestir viðmælendur Kjarnans voru afar svartsýnir á að nást myndi saman og töldu því líklegast að Bjarni myndi skila stjórnarmyndunarumboðinu í dag eða um helgina. Það færi þá til Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, sem myndi reyna að mynda breiða ríkisstjórn frá miðju til vinstri. Að slíkri ríkisstjórn gætu komið allir flokkar sem sæta eiga á Alþingi utan Sjálfstæðisflokksins, annað hvort sem hluti af ríkisstjórninni eða sem stuðningsaðili hennar gegn því að fá lykilmál sín í gegn.