Brynjar Níelsson, þingmaður Sjáfstæðisflokks, telur rétt að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, fái stjórnarmyndunarumboðið næst ef Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, skili því í dag. Hún reyni þá „að mynda þessa fimm flokka vinstri stjórn.“ Þetta sagði Brynjar í Morgunútvarpinu á Rás 2 í dag þar sem hann ræddi stjórnarmyndunarviðræður ásamt Steingrími J. Sigfússyni, þingmanni Vinstri grænna.
Steingrímur sagði að þótt nefna mætti einhver málasvið þar sem ekki væri óbrúanleg gjá á milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks þá væri lengst allra á milli flokkanna í öðrum grundvallarmálum. Þar nefndi hann jöfnuð, skattlagningu og ráðstöfun ríkisfjármála. Það gæti því reynst erfitt fyrir flokkanna tvo að ná saman líkt og margir Sjálfstæðismenn hafa talað fyrir og eðlilegast væri fyrir Vinstri græna að líta fyrst til flokkanna sem séu þeim nær í stefnu.
Brynjar sagði að Viðreisn og Björt framtíð hefðu stillt Sjálfstæðisflokknum upp við vegg í stjórnarmyndunarviðræðum með því að fara fram á einhverjar breytingar í sjávarútvegi og landbúnaði og að það þyrfti atkvæðagreiðslu um Evrópusambandið. „Það er vont þegar verið er að stilla upp við vegg með þessum hætti, segja að einhverjir hlutir séu ófrávíkjanlegir. Þá komast menn lítið af stað. Þannig að ég held að það sé ákveðið vandamál í þessu sem gerir þetta miklu erfiðara.“
Kjarninn greindi frá þvi í morgun að Evrópumálin séu helsti ásteytingarsteinninn í viðræðum Sjálfstæðisflokks annars vegar og Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hins vegar um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur myndast umræðugrundvöllur fyrir breytingar í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum sem allir aðilar geta sætt sig við að byggja formlegar umræður á en í Evrópumálum virðist enginn tilbúinn að gefa neitt eftir. Í gær gengu tillögur um útfærslur á lausnum á milli viðræðuraðila en ekki náðist saman um þær.
Flestir viðmælendur Kjarnans voru afar svartsýnir á að nást myndi saman og töldu því líklegast að Bjarni myndi skila stjórnarmyndunarumboðinu í dag eða um helgina.