Skattrannsóknarstjóri hefur vísað 46 skattaundanskotamálum til saksóknara. Í öllum málunum er talið að stórfelld lögbrot hafi verið framin sem varða við hegningarlög. Talið er að hundruðum milljóna króna hafi verið komið undan skatti. Frá þessu var greint í fréttum RÚV í kvöld.
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri gekk frá kaupum á gögnum um eiginir Íslendinga í skattaskjólum fyrir 37 milljónir króna sumarið 2015. Í þeim fundust 500 félög sem tengdust Íslendingum. Í frétt RÚV sagði að í hverju máli geti skattaundanskot numið á bilinu einni milljón króna upp í tugi, ef ekki hundruði milljóna króna.
Í Panamaskjölunum sem fjölmiðlar greindu frá í apríl á þessu ári fundust nöfn um 600 Íslendinga. Jafnvel þó það sé ekki ólöglegt að eiga peninga í skattaskjólum er oft ómögulegt að sannreina skattaupplýsingar félaga sem skráð eru í skattaskjólum.
Í frétt RÚV segir að 108 mál hafi verið tekin til formlegarar rannsóknar sem tengdust Panamaskjölunum. Sum höfðu verið áður til rannsóknar. 34 mál voru tekin til formlegrar rannsóknar eftir að skattrannsóknarstjóri keypti skattagögnin í fyrra. Þrjú hafa verið felld niður.
Tekin hefur verið skýrsla af hátt í 200 manns vegna þessara mála og hátt í 100 manns hafa stöðu sakbornings í þessum málum. 46 málum hefur verið vísað til saksóknara þar sem skattrannsóknarstjóri hefur komist að niðurstöðu um að stórfelld brot hafi verið framin.