Donald Trump ætlar að víkja tveimur til þremur milljónum óskráðra innflytjenda í Bandaríkjunum úr landi „um leið“ og hann kemst til valda 20. janúar næstkomandi. Þetta er haft eftir honum í fréttaþættinum 60 mínútum.
„Það sem við ætlum að gera er að vísa úr landi fólki sem eru glæpamenn, eru á sakaskrá, eru gengjameðlimir, eru eiturlyfjasalar; þetta eru örugglega tvær milljónir – gætu jafnvel verið þrjár milljónir – við ætlum að vísa þeim úr landi og við ætlum að hreppa þau í varðhald,“ er haft eftir Trump.
Frá þessu er meðal annars greint á vef breska dagblaðsins The Independent. Þetta er fyrsta sjónvarpsviðtalið sem Donald Trump veitir eftir að hann var kjörinn forseti Bandaríkjanna á þriðjudaginn. Hann hafði lofað að beita sér í innflytjendamálum og meðal annars banna múslimum að búa í Bandaríkjunum, flytja alla Mexíkóa úr landi; allt fólk sem hann sagði vera glæpamenn.
Spurður hvort hann ætli enn að byggja vegg eftir öllum syðri landamærum Bandaríkjanna svarði Trump einfaldlega: „Já.“
Lesa nánar: Hefur Trump kastað af sér úlfsfeldinum?
Paul Ryan, forseti bandaríska þingsins, hafði áður sagt að Donald Trump hefði ekki gert neinar áætlanir um að standa við loforð um brottflutning innflytjenda frá Bandaríkjunum. Þetta virðist því vera enn ein U-beyjan í stefnu Trump og Repúblikana.
Fjöldi fólks hefur mótmælt kjöri Trumps í stærstu borgum Bandaríkjanna öll kvöld síðan ljóst var að hann yrði kjörinn á miðvikudag. Fólkið er ekki síst að mótmæla því sem Trump hefur lofað. Trump hefur til að mynda lofað því að gera arfleifð Baracks Obama að engu, með því að kasta heilbrigðiskerfi Obama út um gluggan og afnema allar skuldbindingar Bandaríkjanna í Parísarsamningnum um loftslagsmál.