Chelsea Manning hefur biðlað til Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, um að hann stytti fangelsisdóm hennar í þau rúmlega sex ár sem hún hefur þegar dúsað í fangelsi. Manning viðurkenndi að árið 2010 hafi hún lekið gagnasafni um utanríkis- og varnarmál Bandaríkjanna til Wikileaks. Hún var dæmd í 35 ára fangelsi. Frá þessu er meðal annars greint í The New York Times.
Chelsea Manning óskar eftir í formlegri beiðni sinni til Obama að fangelsisdómurinn verði styttur í þessi sex ár sem hún hefur setið í fangelsi. Hún viðurkennir brot sín á ný og lýsir erfiðu lífi sínu og þeirri ringulreið sem hafi komist í líf hennar þegar hún var að átta sig á eigin kyni. Þá var hún fótgönguliði í bandaríska hernum í Írak. Manning gekk áður undir nafninu Bradley Manning, eða þar til hún ákvað að leiðrétta kyn sitt.
Fjölmiðlar greindu frá því á dögunum að Manning hafi gert aðra tilraun til þess að svipta sig lífi í fangelsinu í október. Eftir fyrri tilraunina var hún sett í einangrun, ekki síst vegna þeirrar meðferðar sem hún sætir í fangelsinu.
„Ég bið ekki um að dómnum verði aflétt,“ skrifar Manning til Obama. „Eina eftirgjöfin sem ég óska er að mér verði sleppt úr herfangelsi eftir sex ár í haldi sem einstaklingur sem hafði ekki í hyggju að koma höggi á hagsmuni Bandaríkjanna eða á þá sem gegna herþjónustu.“
Herréttur dæmdi Manning til 35 ára fangelsisvistar í júlí 2013 eftir lögum um njósnir. Þetta er langsamlega þyngsti fangelsisdómur sem kveðinn hefur verið upp og byggður á þessum njósnalögum. Aðrir þeir sem hafa lekið gögnum og hlotið dóma hafa þurft að sæta fangelsisvist í eitt til þrjú og hálft ár.
Með beiðninni, sem lögmaður Manning sendi fjölmiðlum vestanhafs, fylgja stuðningsyfirlýsingar annarra uppljóstrara á borð við Daniel Ellsberg sem lak Pentagonskjölunum um Víetnamstríðið árið 1971. Einnig fylgdi stuðningsbréf frá Morris Davis, fyrrverandi aðalsaksóknara í herrétti Bandaríkjanna, og frá Glenn Greenwald, blaðamanni sem hefur stutt Manning.