Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það megi halda því fram að hann sé enn með stjórnarmyndunarumboðið þar til annar fái það. Hann sé hins vegar ekki með viðmælendur í augnarblikinu. Þetta sagði Bjarni eftir að hann upplýsti Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, um lok viðræðna um myndun stjórnar flokks hans með Bjartri framtíð og Viðreisn. Upp úr viðræðunum, sem staðið hafa formlega frá því á föstudag, slitnaði fyrr í dag.
Bjarni sagði að það kunni vel að vera að Guðni Th. ákveði nú að fela öðrum formanni stjórnarflokks umboð til að mynda ríkisstjórn. Hann sagðist sjálfur hafa alfarið átt frumkvæði að slitum á viðræðum við Bjarta framtíð og Viðreisn. Það hafi hann gert vegna þess að það hefði verið uppsöfnuð tilfinning hans að ríkisstjórn flokkanna væri ekki á vetur setjandi.
Bjarni sagði að það væru vonbrigði að svona hafið farið og honum finnst menn allt of fastir í skotgröfum. Þeir séu ekki tilbúnir að sýna þann sveigjanleika sem til þurfi til að sýna ábyrgð eftir kosningar og mynda ríkisstjórn. Ekki hafi strandað á því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið að ýta sínum stefnumálum með miklum krafti fram. Það hefðu hinir flokkarnir gert. „Menn þurfa að setja hagsmuni landsmanna í forgrunn, en ekki hagsmuni æstustu stuðningsmanna úr kosningabaráttunni.“