Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, hefur verið boðuð á fund forseta Íslands á morgun. Þau munu hittast klukkan eitt á morgun. Guðni Th. Jóhannesson forseti ákvað að boða Katrínu á sinn fund eftir að hafa átt fund með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, og rætt við aðra leiðtoga flokka.
Fyrr í dag ræddi Kjarninn við Katrínu en þá hafði hún ekki heyrt neitt frá forsetanum. Fréttin sem þá var skrifuð fer hér á eftir.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs, hefur ekki verið boðuð á fund á Bessastöðum. Þetta segir hún í samtali við Kjarnann. Að öðru leyti sagðist hún lítið geta tjáð sig um tíðindi dagsins, en stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar var slitið í dag eftir tæplega fjögurra daga viðræður.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, mun mæta til fundar við forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson, núna klukkan 17. Mögulega mun hann skila stjórnarmyndunarumboðinu, sem Guðni fól honum fyrir tveimur vikum síðan. Það verður væntanlega ljóst að fundi þeirra loknum.
Ef Bjarni skilar umboðinu eða Guðni ákveður að fela það einhverjum öðrum er talið líklegt að sú manneskja verði Katrín Jakobsdóttir. Vinstri-græn eru næststærsti flokkur landsins eftir kosningarnar, og Katrín hefur lýst því yfir að fengi hún umboðið yrði hennar fyrsti kostur að reyna að mynda stjórn frá vinstri og að miðju.