Skeljungur birti í dag skráningarlýsingu fyrir félagið þar sem fram kemur að það almennt útboð á hlutabréfum þess eigi að hefjast mánudaginn 28. nóvember næstkomandi. Það á að standa til miðvikudagsins 30. nóvember og í boði eru 23,5 prósent hlutur í félaginu. Sá hlutur gæti hækkað upp í 31,5 prósent ef eftirspurn verður mikil. Gangi útboðið stendur til að skrá hlutabréf í Skeljungi á markað í desember. Þetta kemur fram í skráningarlýsingunni.
Rúmt ár er síðan að Skeljungur tilkynnti að félagið stefndi að því að verða skráð á markað síðla árs 2016. Í dag er Skeljungur að mestu leyti í eigu lífeyrissjóða og Arion banka. Sá hópur keypti fyrirtækið og færeyska dótturfélag þess P/F Magn árið 2013. SÍA II, sjóður sem rekinn er af sjóðsstýringafélaginu Stefni, dótturfélagi Arion banka, leiddi kaupin. Morgunblaðið sagði á sínum tíma að kaupverðið fyrir Skeljung hafi verið yfir fjórir milljarðar króna. Auk þess hafi 3,95 milljarðar króna verið greiddir fyrir færeyska félagið. Samtals var því greitt um átta milljarðar króna fyrir félögin tvö.
Rekstur Skeljungs hefur gengið mjög vel á undanförnum árum. Fyrirtækið hagnaðist til að mynda um tæpan 1,5 milljarð króna á árunum 2010 og 2011. Í febrúar 2012 endurfjármagnaði Arion banki allar skuldir móðurfélags Skeljungs sem greiddi með því upp allar skuldir sínar við Íslandsbanka. Skeljungur hagnaðist um 571 milljón króna árið 2014 og á því ári námu tekjur fyrirtækisins 42,8 milljörðum króna. Í fyrra dróst hagnaðurinn töluvert saman og var 273 milljónir króna. Sömuleiðis drógust tekjur saman og voru 36,8 milljarðar króna, en hröð lækkun á olíuverði hefur þar spilað stærsta rullu. Það sem af er ári hafa tekjurnar tekið vel við sér og voru hærri á fyrstu níu mánuðum ársins 2016 en allt árið í fyrra, eða 36,9 milljarðar króna. Hagnaður það sem af er ári er 1,1 milljarður króna.