Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, segir að viðræður milli Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins strandað á Evrópusambandsmálum og sjávarútvegsmálum.
„Á endanum reyndist hugmyndin um að þjóðin fengi að greiða atkvæði um áframhald viðræðna við ESB annars vegar, og umbætur í kvótakerfinu hins vegar, of stór biti fyrir menn að kyngja.“
Það hafi hins vegar verið vel þess virði að taka þátt í stjórnarmyndunarviðræðum til að reyna að ná saman um frjálslyndar áherslur og umbætur í íslensku samfélagi. „Björt framtíð hefur frá upphafi verið skýr um það að við erum tilbúin að axla ábyrgð til góðra verka en ekki lélegra. Við höfum staðið fast á þeim prinsipum og munu gera það áfram. Á endanum er það almannahagur sem skiptir máli. Ekkert annað. Ást og friður,“ skrifar Óttarr á Facebook-síðu sína.
Pawel Bartoszek þingmaður segir á Facebook að flokkurinn hafi farið bjartsýnn inn í viðræðurnar og með áherslu á ákveðin málefni. Bilið hafi hins vegar reynst óbrúanlegt að sinni, sérstaklega í sjávarútvegsmálum. Jón Steindór Valdimarsson þingmaður segir að sérstaklega hafi ekki náðst árangur í sjávarútvegsmálum og Evrópumálum.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, tjáir sig um málið á Vísi. Hann segir þetta auðvitað vonbrigði, því menn færu ekki í svona viðræður nema með einlægum ásetningi um að það gangi. „Það er náttúrulega rétt að það er lítill meirihluti og í stórum þingflokki eru kannski ekki allir samstíga,“ segir Benedikt. Hann segir erfitt að ná samkomulagi í stórum málum þegar nýir flokkar sem vilji fara í alvöru kerfisbreytingar komi inn.