„Við áttum ekki endilega von á þessu. Ég mun núna funda með mínum þingflokki, og mun ræða við fulltrúa allra flokka á morgun,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, við fjölmiðla á Bessastöðum rétt í þessu. Katrín hefur nú fengið stjórnarmyndunarumboðið frá Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands.
Hún sagði alveg ljóst hvaða leið hún hafi talað fyrir, það væri fjölflokkastjórn. Hún játti því að hún væri þá að ræða um fimm flokka stjórn, stjórn allra flokka nema Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Staðan væri auðvitað flókin, en hún nálgaðist auðvitað verkefnið með bjartsýni.
Hún sagði jafnframt að það væri ábyrgðarhluti að reyna að koma saman starfhæfri ríkisstjórn í landinu, og allir flokkar gerðu sér grein fyrir því. Hún tæki því af auðmýkt. Katrín sagðist aðspurð ekki ætla að segja neitt fyrirfram eða útiloka.
Katrín fór beint af Bessastöðum á Alþingi þar sem hún fundar með þingflokki VG klukkan 14.