Lögfesting jafnlaunavottunar hlaut ekki mikinn hljómgrunn meðal Sjálfstæðismanna í viðræðum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar við þá um helgina. Þetta kemur fram í færslu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, þingmanns Viðreisnar, á Facebook.
Viðreisn hélt blaðamannafund fyrir kosningar til að kynna tillögu sína um jafnlaunavottun og hét því að málið yrði fyrsta þingmál flokksins.
Þorgerður Katrín fer yfir ýmis forgangsmál flokksins í færslunni á Facebook. „Jafnréttismál eru risamál í okkar augum. Þar stöndum við enn frammi fyrir óþolandi kynbundnum launamun. Ekkert þokast og menn ypta öxlum og segja þetta svo flókið og erfitt. En það er ekki svo. Það er aðgerðaleysið sem er vont og erfitt. Því sögðum við að fyrsta mál okkar myndi miða að því að ná fram kynjajafnrétti í gegnum jafnlaunavottun. Jafnréttismál eru alvörumál sem snerta alla og í því ljósi lögðum við í Viðreisn fram lausn í málinu,“ skrifar Þorgerður Katrín.
„Því er ekki að leyna að þetta jafnréttismál hlaut ekki mikinn hljómgrunn í viðræðum við Sjálfstæðisflokkinn um helgina ekki frekar en sjávarútvegsmálin.“
Þorgerður Katrín kemur meira inn á sjávarútvegsmálin og segir markaðsleiðina sem Viðreisn hafi lagt til vera hófsama. Enginn hafi verið að biðja um kollsteypu heldur aukið réttlæti. „Þessi mikilvæga atvinnugrein á ekki í sífellu að vera bitbein hjá þjóðinni og stjórnmálamönnum. Þess vegna lögðum við fram lausn til sáttar og stöðugleika.“
Flokkurinn hafi líka viljað endurskoða búvörusamningana og hafi lagt áherslu á myntráð sem lausn í peningamálum.
„Í heilbrigðismálum var stefna okkar skýr. Heilbrigðiskerfið þarf að endurreisa með markvissum aðgerðum með fókus á sjúkrahúsin okkar, heilsugæslu, hjúkrunarheimili og lýðheilsu. Þetta brann á fólki. Áherslum okkar í að efla sálfræðiþjónustu og setja hana inn í sjúkratryggingarkerfið var einnig tekið fagnandi. Líka öðrum hugmyndum um endurskoðun á greiðsluþátttökukerfinu með það fyrir augum að lækka kostnað ákveðinna hópa. Heilbrigðismálin hvíldu þungt á fólki fyrir kosningar.“
Þorgerður Katrín segist geta nefnt mun fleiri málefni sem hafi brunnið á fólki fyrir kosningar, líkt og umhverfismál, alþjóðasamstarf og menntamál.
„Í Viðreisn höfum við lagt okkur fram við að horfa á málefnin og vera lausnamiðuð, bæði fyrir og eftir kosningar. Við gerum okkur líka grein fyrir því að nauðsynlegt er að gera málamiðlanir.“ Hú segir það vera fróðlegt að sjá hvort þau frjálslyndu viðhorf sem Viðreisn og Björt framtíð hafi sett fram hljóti brautargengi í næstu lotu stjórnarmyndunarviðræðna.