Þungt hljóð er í grunnskólakennurum en viðræður Félags grunnskólakennara og sveitarfélaga hófust í gær, og er annar fundur hjá ríkissáttasemja á dagskrá á morgun.
Fjölmennur fundur kennara í Háskólabíói í gær, ályktaði á þá leið að nauðsynlegt væri að hækka laun kennara strax, og koma til móts við slæma stöðu sem skólastarfið stemmdi í, meðal annars vegna lítillar nýliðunar í kennarastétt. „Fjölmennur fundur kennara haldinn í Háskólabíói þriðjudaginn 15. nóvember skorar á borgarstjórn Reykjavíkur að semja strax við Félag grunnskólakennara. Lág laun kennara hafa nú þegar valdið því að grunnskólinn er að drabbast niður, kennarar hyggja á uppsagnir og nýliðun í kennarastétt er alltof lítil. Alvarlegur kennaraskortur blasir við á næstu misserum. Fundurinn krefst þess að grunnlaun kennara hækki nú þegar þannig að þau taki mið af menntun þeirra og síaukinni ábyrgð. Við förum fram á að Reykjavíkurborg sem stærsta sveitarfélag landsins axli ábyrgð sína á stöðu grunnskólanna með því að hafa forgöngu um nauðsynlegar hækkanir kennurum til handa og bregðist við þeim bráðavanda sem við blasir. Eftir það er nauðsynlegt að hefja uppbyggingu grunnskólanna að alvöru,“ sagði í bókun sem fundurinn samþykkti.
Grunnskólakennarar hafa verið án samnings síðan í júní og hafa í tvígang fellt kjarasamninga.
Ákvörðun Kjararáðs, um að hækka laun æðstu ráðamanna þjóðarinnar, forseta Íslands, þingmanna og ráðherra, hefur fallið í grýttan jarðveg á vinnumarkaði, og hafa öll helstu hagsmunasamtök og stéttarfélög, hjá verkalýðshreyfingunni, atvinnurekendum og starfsfólki hjá hinu opinbera, mótmælt ákvörðuninni og sagt hana grafa undan möguleikanum á sátt á vinumarkaði.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði ákvörðunina kalla á að þing verði kallað tafarlaust saman til þess að afturkalla hana.
Ákvörðunin var tekin 29. október, á kjördag. Í rökstuðningi segir meðal annars, að mikilvægt sé að æðstu ráðamenn búi við fjárhagslegt öryggi og séu engum háðir í starfi sínu.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hefur þegar afþakkað launahækkunina en ekkert hefur verið gefið út um það, hvort þingmenn og ráðherrar muni gera slíkt hið sama.