Vinsælustu fölsuðu kosningafréttirnar fyrir bandarísku forsetakosningarnar náðu meiri útbreiðslu á Facebook en vinsælustu raunverulegu fréttirnar gerðu á síðustu þremur mánuðum kosningabaráttunnar, samkvæmt nýrri athugun sem BuzzFeed News gerði. Athugunin náði til stærstu fjölmiðla í Bandaríkjunum.
Þær tuttugu fölsuðu fréttir sem höfðu mesta virkni, eða engagement eins og það er kallað á ensku, sem er fjöldi deilinga, athugasemda og viðbragða, fengu yfir 8,7 milljón deilingar, athugasemdir og viðbrögð á Facebook. Tuttugu vinsælustu alvöru fréttirnar fengu á sama tíma 7,3 milljónir deilinga, athugasemda og viðbragða.
Fram að þessum síðustu þremur mánuðum hafði kosningaefni frá stærstu fréttamiðlunum fengið margfalt meiri virkni en falsaðar fréttir. Á tímabilinu febrúar til apríl var virknin til dæmis um tólf milljónir á alvöru fréttirnar en þrjár milljónir á þær fölsuðu.
Af þessum tuttugu vinsælustu fölsku fréttum voru sautján annað hvort mjög til stuðnings Donald Trump eða mjög gegn Hillary Clinton. Tvær stærstu fréttirnar voru um að Benedikt páfi styddi Trump og að Clinton hafi selt vopn til Íslamska ríkisins.
Mikið hefur verið rætt um rangar fréttir og um mátt eða vanmátt samfélagsmiðla á borð við Facebook og Twitter í því að stemma stigu við útbreiðslu þeirra. Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, sagði fyrst að það væri brjáluð hugmynd að halda að falsaðar fréttir á Facebook hafi haft áhrif á kosningarnar. En nú er engu að síður hafin vinna hjá Facebook við að reyna að stöðva útbreiðslu efnis sem er falsað. Einnig hefur verið greint frá því að Google ætli að banna þekktar síður sem birta falsað efni í auglýsingum.
Paul Horner er einn þeirra sem hefur verið duglegur við að skrifa falsaðar fréttir, sem hafa náð mikilli útbreiðslu á Facebook og Twitter, og er eins konar frumkvöðull í þessum málum. Hann talar um þetta við Washington Post. Hann segir að honum finnist hann bera ábyrgð á því að Trump sé á leið í Hvíta húsið. Stuðningsmenn hans hafi einfaldlega verið mjög ginnkeyptir fyrir fölsuðum fréttum. „Stuðningsmenn hans sannreyndu ekki neitt – þeir deildu öllu, trúðu öllu. Kosningastjórinn hans deildi fréttinni minni um að mótmælandi hefði fengið 3.500 dollara eins og það væri staðreynd. Ég bjó það til. Ég setti falsaða auglýsingu á Craigslist,“ segir hann og á við frétt um að mótmælandi á kosningafundi Trumps hafi fengið borgað fyrir.
Margir sem unnu við kosningabaráttu Trumps deildu efni frá Horner. Hann segist hafa sett þessar fölsuðu fréttir fram til þess að láta stuðningsmenn Trump líta illa út. „Ég hélt að þau myndu staðreyndatékka þetta, og það myndi láta þau líta enn verr út. Ég meina, þannig virkar þetta alltaf. Einhver deilir einhverju sem ég skrifa, og kemst svo að því að það sé falsað, og lítur út eins og auli. En stuðningsmenn Trump – þeir bara halda áfram með það. Þeir staðreyndatékka aldrei neitt! Nú er hann í Hvíta húsinu. Þegar ég lít til baka, í stað þess að skemma fyrir kosningabaráttunni, þá held ég að ég hafi hjálpað henni. Það er ekki góð tilfinning.“