Samfylkingin hefur frestað flokksstjórnarfundi sem átti að vera á laugardaginn vegna þreifinga um stjórnarmyndun. Þetta kemur fram í pósti sem Logi Már Einarsson, formaður flokksins, sendi á félagsmenn flokksins í dag.
Á flokksstjórnarfundinum átti meðal annars að kjósa nýjan varaformann í stað Loga, en hann var kjörinn varaformaður í vor þegar Oddný G. Harðardóttir var kjörin formaður í flokknum, og tók við sem formaður þegar Oddný sagði af sér embættinu eftir kosningar.
Ekki hefur verið ákveðið hvenær fundurinn verður haldinn í staðinn, en Logi segir aðeins að ákveðið hafi verið að fresta honum um einhvern tíma. „Hann verður þó haldinn um leið og málin skýrast og þar ætlum við í sameiningu að leita leiða fram á við.“
Logi og Oddný fóru á fund Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, í morgun. Katrín fundar í dag með forsvarsmönnum allra flokka, og ákvað að gera það í öfugri stærðarröð, þannig að Logi og Oddný voru fyrst. Fundum hennar lýkur með fundi við forystu Sjálfstæðisflokksins.
Á fundinum í morgun sögðu þau Katrínu að Samfylkingin væri reiðubúin til að taka sæti í ríkisstjórn.