Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur boðað til nýs fundar með formönnum og öðrum forsvarsmönnum Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar á morgun klukkan 13. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vinstri grænum.
Fulltrúar flokkanna, alls 15 manns, funduðu í tvo og hálfan tíma í dag þar sem farið var yfir ýmis stórmál. Katrín sagði við mbl.is fyrr í dag að á fundinum hefði m.a. verið fjallað um heilbrigðismál, skattamál, sjávarútvegsmál og fleira. Hún sagði enn fremur að það myndi skýrast á morgun, sunnudag, hvort að af formlegum viðræðum flokkanna fimm verði eða ekki.
Í samtali við RÚVsögðu fulltrúar allra flokkanna fimm að fundurinn í dag hefði verið jákvæður og að samhljómur væri meðal þeirra. Katrín sagði þar að hún gæti vel séð fyrir sér að flokkarnir fimm gætu unnið saman.