Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, segir að hann myndi íhuga það eftir atvikum að þiggja ráðherrastarf, stæði slíkt honum til boða. „En ég geri það ekki valdanna vegna. Mér finnst sjúkt að þrá völd. Ég vorkenni fólki sem gerir það. Vald er viðbjóður og fer illa með sumt fólk.“ Þetta segir Helgi Hrafn í viðtali við Fréttablaðið í dag.
Þrír umboðsmenn Pírata, Birgitta Jónsdóttir, Smári McCarthy og Einar Brynjólfsson taka nú þátt í óformlegum stjórnarmyndunarviðræðum fimm flokka. Gangi þær eftir munu Píratar væntanlega fá ráðherraembætti. Í febrúar samþykktu Píratar ályktun með 94 prósent greiddra atkvæða sem í fólst að flokkurinn myndi hafna aðkomu að ríkisstjórn þar sem þingmenn eru einnig ráðherrar. Það yrði gert að „algjörri og ófrávíkjanlegri kröfu af hálfu Pírata um stjórnarsamstarf að þessi háttur verði hafður á.“ Í viðtali við Kjarnann skömmu eftir að ályktunin var samþykkt sagði Helgi Hrafn að honum langaði ekkert til að verða ráðherra.
Í viðtalinu við Fréttablaðið í dag segist Helgi Hrafn geta hugsað sér að halda áfram í stjórnmálum og að hann komi mögulega aftur inn á svið þeirra síðar, sérstaklega ef stjórnarskrármálið krefjist þess. Margar ástæður hafi verið fyrir því að hann hafi ekki boðið sig aftur fram til Alþingis í þetta sinn, meðal ananrs sú að þingmennska taki yfir líf manna. „Maður starfar ekki á þingi, maður er þingmaður. Þegar maður tekur þessa ákvörðun þá þarf maður að velja á milli tveggja gjörólíkra lífsstíla, og ég valdi að vera óbreyttur borgari þetta kjörtímabil. Mér finnst ekki gaman að vera stjórnmálamaður. Mér finnst það glatað eins og staðan er núna. Samt finnst mörgum ég góður stjórnmálamaður og ég býð mig sennilega aftur fram en þá verður það ekki til gamans.“
Búin til vinstri- og brjálæðingagrýla
Helgi Hrafn segir að á Alþingi líðist hegðun sem myndi aldrei líðast á öðrum vinnustöðum. „Þú ferð í pontuna og rökstyður þitt mál. Þá kemur einhver annar í pontuna, tekur það sem þú sagðir, snýr því á hvolf, niðurlægir þig, reynir að gera það sem mest. Þetta er rugl og það eru sjálfsagt einhverjir sem geta ekki sofið. Ég er heppinn því ég get það.“ Hann telur að vinnustaðasálfræðingar ættu að starfa á Alþingi og að einn slíkur ætti að vera til taks fyrir hvern flokk. Það myndi bæta orðræðuna og vinnubrögðin innan þingsins.
Að mati Helga var kynnt undir ótta gagnvart Pírötum í nýliðinni kosningabaráttu. Hann segir að það hafi verið búin til bæði vinstri grýla og brjálæðingagrýla. „Eins og Bjarni Benediktsson orðaði það þá leist honum ekkert á að fá fólk til valda sem ætlaði að taka stjórnarskrána, rífa hana í tætlur og henda henni í ruslið. Mér fellur illa svona tal. Því auðvitað er þetta hugmynd sem enginn hefur stungið upp á. Frekar augljóst. Þetta finnst mér áhugavert við pólitík og það sem ég er mest að pæla í þessa dagana. Það er hvað óheiðarleiki er innbyggður í stjórnmál. Þá er ég ekki bara að tala um óheiðarleika stjórnmálamanna sem birtist í orðum og gjörðum, líka almennings, kjósenda. Bjarni upplifði sig ekkert sem óheiðarlegan, en þetta er þvæla. Niðurlægjandi tal. Mér leiðist þetta[...]Ég er ekkert að taka Bjarna sérstaklega fyrir, þetta á við um alla og þar á meðal mig sjálfan. Það er ekki þannig að menn gangi inn í Alþingishús og breytist í einhverja aumingja. Þetta er allt harðduglegt fólk sem leggur mikið á sig og uppsker lítið. En það má breyta hlutunum til góðs, ég hef trú á því.“