Flestir Íslendingar vilja Vinstri græn í ríkisstjórn. Aðspurðir hvaða flokka, tvo eða fleiri, almenningur vill sjá mynda nýja ríkisstjórn svöruðu 67 prósent að þeir vildu sjá Vinstri græn í slíkri. Næst flestir nefndu Bjarta framtíð (66 prósent) og 59 prósent nefndu Viðreisn. Þar á eftir kemur stærsti flokkur landsins, Sjálfstæðisflokkur, með 57 prósent. Fæstir vilja sjá Samfylkinguna, minnsta flokkinn á þingi, í ríkisstjórn eða fimmtungur aðspurða. 24 prósent vilja sjá Framsóknarflokkinn í slíkri og 34 prósent Pírata. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup.
Kjósendur Vinstri grænna ekki heitir fyrir hægri flokkunum
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins vilja nær allir (98 prósent) sjá sinn flokk í ríkisstjórn og 88 prósent þeirra vilja að Framsóknarflokkurinn verði þar með honum. Þá segja átta af hverjum tíu kjósendum Sjálfstæðisflokks að þeir vilji fá Viðreisn í ríkisstjórn. Einungis 22 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins vilja að Vinstri græn sitji í ríkisstjórn. Enn færri vilja Pírata (16 prósent) eða Samfylkinguna (15 prósent) við ríkisstjórnarborðið.
Kjósendur Vinstri grænna vilja að sama skapi að flokkurinn sitji í ríkisstjórn (98 prósent). Einungis 45 prósent þeirra vilja hins vegar að Sjálfstæðisflokkurinn geri slíkt hið saman. Mun meiri áhugi er á meðal kjósenda Vinstri grænna á að Samfylkingin (93 prósent), Píratar (86 prósent) og Björt framtíð (73 prósent) sitji í ríkisstjórn. Athygli vekur að kjósendur Vinstri grænna vilja síst að Viðreisn sitji í ríkisstjórn (42 prósent). Nú standa yfir formlegar stjórnarmyndunarviðræður milli fimm flokka: Vinstri grænna, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Viðreisnar.
Þegar spurt er út í sérstök stjórnarmynstur er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar efst á blaði, en 12 prósent aðspurðra vildu sjá hana verða að veruleika. Þessir flokkar reyndu að mynda ríkisstjórn fyrr í þessum mánuði en án árangurs. Næst þar á eftir kemur fimm flokka stjórn þeirra flokka sem nú reyna að koma saman ríkisstjórn, en tíu prósent aðspurðra vilja að þeir geri slíkt. Af þeim stjórnarmynstrum sem eru gerleg til að mynda meirihlutastjórn vilja langflestir kjósendur Vinstri grænna, Pírata og Samfylkingar að fimm flokka stjórnin verði að veruleika. Kjósendur Bjartrar Framtíðar, Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar voru hins vegar allir hrifnastir af þriggja flokka stjórn þeirra flokka.
Flestir kjósendur Bjartrar framtíðar og Viðreisnar ákváðu sig á kjördag
Í könnuninni var fólk einnig spurt hvenær það hefði tekið ákvörðun um hvað það ætlaði að kjósa í nýafstöðnum kosningum. Innan við þriðjungur landsmanna hafði tekið ákvörðun mánuði fyrir kosningar, sem er mun minna hlutfall en 2009 (38 prósent) og 2007 (57 prósent). Alls ákváðu 17 prósent landsmanna sig í kjörklefanum eða á kjörstað.
34 prósent kjósenda Bjartrar framtíðar ákváðu í kjörklefanum eða á kjörstað hvað þeir ætluðu að kjósa og 20 prósent til viðbótar samdægurs áður en þeir mættu á kjörstað. 24 prósent þeirra sem kusu Viðreisn ákváðu í kjörklefanum eða á kjörstað hvað þeir ætluðu að kjósa og 22 prósent ákváðu sig samdægurs en áður en þeir mættu á kjörstað. Þeir sem kusu Sjálfstæðisflokkinn voru líklegastir til að ákveða sig meira en mánuði fyrir kosningar, en 46 prósent þeirra hafði gert það. Einungis 20 prósent kjósenda flokksins ákvað sig á kjördag eða í kjörklefanum, sem er lægsta hlutfall allra sem ákváðu hvað þeir ætluðu að kjósa þá.
Niðurstöðurnar eru úr netkönnun sem gerð var dagana 3. til 14. nóvember 2016. Heildarúrtaksstærð var 1.424 og þátttökuhlutfall var 59,1 prósent. Einstaklingar voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.