WOW air hagnaðist um 4,4 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2016. Það er umtalsvert meiri hagnaður en fyrirtækið státaði af á sama tímabili 2015, þegar hagnaðurinn var 1,5 milljarðar króna. Tekjur WOW air frá byrjun árs og út septembermánuð voru 27 milljarðar króna sem er 105 prósent aukning miðað við sama tímabili í fyrra og rekstrarhangaður flugfélagsins (EBITDA) var 5,9 milljarðar króna samaborið við 2,2 milljarða króna í fyrra. Á þriðja ársfjórðungi einum saman, frá byrjun júlí til loka september, flugu 629 þúsund farþegar með WOW air. Það eru 122 prósent fleiri en gerðu slíkt hið sama á þessum þremur mánuðum árið 2015.
Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW, segir að góð afkoma félagsins endurspegli þrotlausa vinnu síðastliðinna fimm ára. „Við höfum fjárfest mikið í uppbyggingu WOW air á undanförnum árum og ekki síst fyrir síðastliðið sumar þar sem við bættum við þremur nýjum Airbus A330 breiðþotum og hófum flug til Los Angeles og San Francisco. Til að mæta þessari miklu aukningu höfum við ráðið hundruði starfsmanna á árinu og heildarfjöldi starfsfólks WOW air er að nálgast 700 manns.“
WOW air hefur aukið framboð á sætakílómetrum til og frá Norður Ameríku var 354 prósent á milli ára en á sama tíma jókst ferðamannastraumur þaðan til Íslands um 127%. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu er aukning ferðamanna frá N-Ameríku milli ára umtalsvert meiri en frá öðrum skilgreindum markaðssvæðum.