„Píratar hafa af fullum heilindum og samstarfsvilja tekið þátt í stjórnarmyndunarviðræðum. Það eru mikil vonbriði að ekki hafi orðið af þessu sögulega tækifæri til að mynda frjálslynda umbótastjórn,“ segir í tilkynningu frá Pírötum. Jafnframt er tekið fram að traust Pírata á þekkingu og innsæi forsetans, Guðna Th. Jóhannessonar, varðandi næstu skref, sé mikið.
Eins og kunnugt er sigldu stjórnarmyndunarviðræður fimm flokka í strand á sjötta tímanum í dag, en forystufólk Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Bjartrar framtíðar náði ekki saman um að mynda ríkisstjórn. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur þegar tilkynnt forsetanum um þetta, en hún er þó ekki búin að missa stjórnarmyndunarumboðið.
„Stefnumálum Pirata var fyrir kosningar skipt upp í áherslumál og framtíðarsýn, ásamt því að málefni sem kosið er um og tilheyrandi greinargerðir eru aðgengilegar almenningi. Það er ánægjulegt að okkur hafi tekist að vinna að málamiðlunum án þess að þurfa að gefa afslátt af áherslumálum Pírata,“ segir í tilkynningu frá Pírötum.
Jafnframt segir að „tilraunir til að þyrla upp ryki og skapa óvissu um stefnumál sem ekki voru sett á oddinn fyrir kosningar hafa verið áhugaverðar,“ og tekið fram það hafi aldrei verið ætlunin hjá Pírötum að láta stefnumál byggð á ákvæðum nýrrar stjórnarskrár koma í veg fyrir samstarf við aðra flokka í stjórnarmyndun. „Ferli fyrir innleiðingu nýrrar stjórnarskrár var vel tekið. Réttlát dreifing á arði af auðlindum var vel hægt að ná samstöðu um. Enginn hefur sett sig á móti endurreisn heilbrigðisþjónustu, eflingu aðkomu almennings að ákvörðunartöku, að tækla spillingu og því að endurvekja traust á Alþingi. Ekkert af þessum áherslumálum Pírata stóð í vegi fyrir stjórnarmyndun. Þetta er sérlega ánægjulegt í ljósi þess að niðurstöður kosninga hafa verið túlkaðar sem ákall um breiða samstöðu og samstarfsvilja þvert á hið pólitíska landslag,“ segir í tilkynningu frá Pírötum.
Uppfært:
Í stuttri tilkynningu frá Svandísi Svavarsdóttur, fyrir hönd Vinstri grænna, kemur fram að þrátt fyrir góðan anda í viðræðunum hafi ekki tekist að finna grundvöll fyrir áframhaldandi viðræðum.
„Undanfarna daga hafa Vinstri græn, Viðreisn, Björt framtíð, Píratar og Samfylkingin átt í formlegum viðræðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Að þeim hafa komið komið yfir þrjátíu manns fyrir hönd flokkanna sem lagt hafa fram mikla vinnu við að skapa grundvöll fyrir samstarfi þeirra í ríkisstjórn. Góður andi var í viðræðunum og fyrir lá að víða var ágætur samhljómur um málefni.
Frá upphafi var þó ljóst að töluvert langt var á milli flokkanna í ýmsum málefnum, ekki síst hvað varðar fjármögnun nauðsynlegrar uppbyggingar í heilbrigðisþjónustu og menntamálum. Í dag kom í ljós að ekki voru allir flokkarnir með sannfæringu fyrir því að halda viðræðunum áfram og það var því niðurstaða Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna að viðræðum yrði ekki fram haldið,“ segir í tilkynningunni.