Vinstri græn vilja að bætt verði við hátekjuskattþrepi á laun sem eru yfir einni og hálfri milljón króna á mánuði. Flokkurinn er þó opinn fyrir því að mörkin geti legið ofar en ætlar ekki að hækka skatta á millitekjufólk. Þá vilja Vinstri græn leggja á stóreignaskatt þar sem heimili eru undanskilin sem skattstofn. Tvær ástæður eru fyrir þessum vilja flokksins, annars vegar að auka tekjur ríkissjóðs til að fara í sókn í heilbrigðismálum og hins vegar að ráðast í kerfisbreytingu til að auka jöfnuð. Slíkur skattur ætti því að leggjast á þá sem eiga mjög mikil auðævi. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í Fréttablaðinu í dag.
Katrín segir þar að flokkur hennar meti sem svo að það vanti 19 milljarða króna inn í heilbrigðiskerfið á næstu árum til viðbótar við ríkisfjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar. Sækja þurfi þá fjármuni einhversstaðar og ekki verði nóg að auka álögur á sjávarútvegsfyrirtæki eða í ferðaþjónustu. Um þessi skattamál, og önnur fjáröflunarmál ríkissjóðs, hefur verið tekist á fundum þeirra fimm flokka sem nú reyna að mynda ríkisstjórn, líkt og Kjarninn greindi frá á mánudag. Þar ber mest á milli Vinstri grænna og Viðreisnar. Sá málefnahópur flokkanna fimm sem ræðir um efnahagsmál hefur tvo fyrrverandi fjármálaráðherra innanborðs, þau Steingrím J. Sigfússon og Oddnýju Harðardóttur. Auk þeirra sitja í hópnum Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Smári McCarthy og Theodóra S. Þorsteinsdóttir. Ýmsir sérfræðingar hafa komið til fundar við hópinn á undanförnum dögum og samkvæmt heimildum Kjarnans hefur komið fram í máli þeirra að svigrúm til aukningar ríkisútgjalda sé mun minna en áður hefur verið gefið upp. Einskiptistekjur og stöðugleikaeignir sýni góða stöðu ríkissjóðs – raunar nánast einstaka – en aðrir tekjustofnar séu ekki nægilega sterkir til að bæta sjálfbært í velferðarmál með þeim hætti sem vilji flestra flokka standi til. Því þurfi að auka tekjur, og það þurfi að gera með því að hækka skatta eða auka annars konar gjaldtöku. Eftir erfiða byrjun þá gengu viðræður um ríkisfjármálaáætlun vel í gær og fulltrúar flokkanna fimm voru vongóðir að þar myndi nást sátt.
Fleiri atriði eru þó óafgreidd. Lítið hefur til að mynda verið rætt um stóriðjustefnu sem sumir flokkanna vilja afleggja með öllu og þá hafa umræður um sjávarútvegsmál ekki þótt skila nægilega miklum árangri. Vonast var til þess að niðurstaða lægi fyrir í dag um hvort hægt yrði að mynda ríkisstjórn Vinstri grænna, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar en ekki er víst að það takist. Ljóst er þó að sú niðurstaða mun liggja fyrir á allra næstu dögum.