Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, hlaut í dag eins árs dóm í Aurum-málinu í héraðsdómi Reykjavíkur. Magnús Arnar Ásgrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, var dæmdur í tveggja ára fangelsi en Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi viðskiptastjóri hjá bankanum, og Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi aðaleigandi Glitnis, voru sýknaðir í málinu. Greint er frá þessu á mbl.is.
Málið snýst um sex milljarða króna lánveitingu til félagsins FS38 í júlí 2008. Lánið var veitt til að fjármagna kaup FS38, eignarlaust félag í eigu Pálma Haraldssonar, á 25,7 prósent hlut Fons hf., líka í eigu Pálma, í Aurum Holding Limited. Hluti lánsins, einn milljarður króna, var ráðstafað inn á persónulegan bankareikning Jóns Ásgeirs. Hann nýtti þann milljarð síðan í að borga meðal annars 705 milljóna króna yfirdráttarheimild sína hjá Glitni. Héraðssaksóknari, áður sérstakur saksóknari, vill meina að Jón Ásgeir hafi þannig fengið hlut í ávinningi af brotinu og notið hagnaðarins.
Í málinu voru Bjarni og Jón Ásgeir ákærðir fyrir hlutdeild í umboðssvikum Lárusar og Magnúsar Arnars.
Ógilt vegna efa um óhlutdrægni dómara
Þetta var í annað sinn sem málið fór fyrir héraðsdóm. Í fyrra skiptið voru allir sakborningar sýknaðir. Ríkissaksóknari fór hins vegar fram á ómerkingu á meðferð málsins á grundvelli þess að einn meðdómari málsins hefði verið vanhæfur til að fjalla um það. Umræddur meðdómari er Sverrir Ólafsson, fjármálaverkfræðingur, en hann er bróðir Ólafs Ólafssonar, kenndum við Samskip, sem hlaut þungan fangelsisdóm vegna aðildar sinnar að Al-Thani fléttunni svokölluðu. Þetta lá ekki fyrir við meðferð málsins í héraði. Hæstiréttur féllst á það.
Fjölmiðlar komust á snoðir um tengslin eftir dómsuppkvaðningu í héraði og spurðu Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara, hvort hann hefði vitað af tengslunum, sem hann neitaði. Í kjölfarið, nánar tiltekið 9. júní 2014, ræddi fréttastofa RÚV við meðdómarann Sverri. Í þeirri frétt sagði hann: „Ég fór til dómarans, Guðjóns St. Marteinssonar, sagði honum frá tengslum mínum. Hann taldi að það væru ekki vandkvæði á því að ég tæki þetta að mér … Ég trúi því ekki í eina sekúndu að sérstakur saksóknari hafi ekki vitað af mínum tengslum strax í upphafi. Ef hann vissi ekki af mínum tengslum, þá ber það vott um afskaplega léleg og yfirborðskennd vinnubrögð. Mér finnst viðbrögð hans, sko, hæpin og mér finnst þetta bera vott um örvæntingarfullar og jafnvel óheiðarlegar aðgerðir. Og hann grípur til þeirra á erfiðum tímum þegar að trúverðugleiki hans stofnunar er eiginlega í molum.“
Í sjónvarpsfréttum sama kvöld bættust eftirfarandi ummæli Sverris við fréttina: „Ég trúi því fastlega að sérstakur saksóknari hafi vitað allan tímann hver ég var, hann telji það hins vegar kost að fullyrða núna að hann hafi ekki vitað það. Það laumast að mér sá grunur að saksóknari sé í rauninni að gera þetta til þess að veikja dóminn.“
Guðjón þurfti að víkja sæti
Í október í fyrra varð svo ljóst með úrskurði Hæstaréttar að Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari þyrfti að víkja sæti í málinu, en áður hafði héraðsdómur úrskurðað að hann þyrfti ekki að víkja. Sérstakur saksóknari hafði gert kröfu um að Guðjón véki sæti vegna eftirmála málsins í héraðsdómi.
Hann taldi Guðjón ekki geta talist hæfan til að fara með málið. Ástæðan er sú að eftir að Hæstiréttur ómerkti niðurstöðu héraðsdóms í málinu í apríl og vísaði því aftur til héraðsdóms sendi Guðjón tölvupóst til ríkissaksóknara og verjenda ákærðu þar sem hann ræddi málið. Með tölvupóstinum sendi hann grein sem hann hafði ætlað að birta í Fréttablaðinu, en gerði ekki. Greinin fjallaði um málið og umræðuna um vanhæfi Sverris Ólafssonar. Þrátt fyrir að hann hafi hætt við birtingu sögðu 365 miðlar frá innihaldi greinarinnar í fréttum og leiðaraskrifum.
„Ég varð bæði undrandi og fannst að mér vegið með ummælum sérstaks saksóknara í fjölmiðlum eftir uppsögu dómsins. Af því tilefni sendi ég hinn 10. júní 2014 stutta grein til birtingar í dagblaði. Mér þótti sanngjarnt og eðlilegt að greina ríkissaksóknara frá þessu og ræddi því við hana í síma sama dag auk þess að senda henni greinina. Sama dag ræddi ég símleiðis við sérstakan saksóknara sem kannaðist ekki við að hafa rætt bræðratengslin í símtali okkar 13. mars 2014 þótt hann kannaðist við símtalið og ýmislegt sem þar var rætt. Eftir þetta ákvað ég að birta ekki greinina enda ljóst að birtingin myndi valda miklu fjaðrafoki sem ekki væri á bætandi.“
Guðjón segir í tölvupóstinum að á þessum tíma hafi hann hvorki séð fyrir né reiknað með að krafa ákæruvaldsins við áfrýjun yrði krafa um ómerkingu málsins. „Ég hefði hins vegar birt greinina hefði svo verið,“ segir í tölvupóstinum. Þá segir hann að Sverrir hafi látið ummælin falla í fjölmiðlum „eftir ómaklega aðdróttun sérstaks saksóknara í hans garð og raunar gegn mér einnig“.
Í dómi Hæstaréttar er einnig vitnað í óbirtu blaðagreinina, þar sem Guðjón segir að Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, hafi hringt í hann og greint honum frá tengslum Sverris Ólafssonar og Ólafs Ólafssonar að fyrra bragði þann 13. mars 2014. „Lauk samtalinu með því að sérstakur saksóknari kvað ákæruvaldið ekki ætla að gera athugasemd við hæfi meðdómsmannsins og var það ekki gert.“ Þetta hefur komið fram í málinu áður og hefur Ólafur Þór sagt að í umræddu símtali milli hans og Guðjóns hafi hann rætt um það að Sverrir hafi unnið fyrir slitastjórn Glitnis. Þetta kemur einnig fram í dómnum, þar sem vitnað er til tölvupósts sem Ólafur Þór sendi til ríkissaksóknara þann 18. febrúar. „Enn og aftur skyldleikatengsl meðdómarans við C [Ólaf Ólafsson, innskot blaðamanns] voru ekki rædd í því símtali enda hefði ákæruvaldið þá klárlega gert athugasemd við þá skipan dómsins,“ segir í tölvupóstinum.
Hæstiréttur úrskurðaði að Guðjón skyldi víkja sæti vegna þess að orð hans væru fallin til þess að draga mætti með réttu í efa að hugur hans gagnvart Ólafi Þór Haukssyni, sérstökum saksóknara, væri með þeim hætti að tryggt væri að óhlutdrægni yrði gætt við úrlausn málsins.
Ásakanir um vanhæfni og óheiðarleika
Sverrir Ólafsson, sérfróði dómarinn sem varð til þess að fyrri niðurstöðu héraðsdóms ógiltist, skrifaði grein í Morgunblaðið 10. september síðastliðinn þar sem hann fór hörðum orðum um embætti sérstaks saksóknara. Í greininni sagði hann að margt bendi til þess að annað hvort vanhæfni eða óheiðarleiki hafi átti sér stað hjá embætti sérstaks saksóknara með tilliti til meðferðar gagna í Aurum-málinu. Sverrir spyr sig hvort að embættið hafi verið að leyna gögnum í öðrum mikilvægum málum og segir að það verði að taka nýlegan áburð Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings sem ákærður hefur verið í fjölda hrunmála, um slikt alvarlega.
Það sé skoðun sumra að embættið hafi sýnt af sér fordæmalausan ásetning til að sakfella bankamenn, hvað sem það kostar jafnvel þótt það krefjist þess að ólöglegum vinnubrögðum sé beitt. Ekki hafi skort á stuðningi frá reiðri þjóð við þessi verk, sem virðist telja fangelsun mikilvægari en réttmæt málsmeðferð. „Ég hef heyrt þá skoðun setta fram að ef til vill séu sakfellingar í nokkrum banka- eða hrunmálum rangar, en að það sem skipti höfuðmáli sé að réttir menn voru dæmdir. Maður trúir varla eigin eyrum þegar maður heyrir slíkar athugasemdir.“