Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið að stefna Mjólkursamsölunni fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur til þess að reyna að fá niðurstöðu meirihluta áfrýjunarnefndar samkeppnismála hnekkt. Áfrýjunarnefndin komst að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að búvörulög vikju samkeppnislögum frá og ógilti niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins, sem hafði komist að þeirri niðurstöðu að MS hefði með alvarlegum hætti brotið gegn banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu.
Samkeppniseftirlitið lagði 440 milljóna króna sekt á MS vegna málsins, vegna þess að fyrirtækið hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja keppinautum sínum hrámjólk á óeðlilega háu verði á sama tíma og fyrirtækið sjálft og tengdir aðilar fengu sama hráefni undir kostnaðarverði. Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins var að þetta hefði veitt MS og tengdum aðilum verulegt samkeppnisforskot og geta keppinauta hafi verið skert með alvarlegum hætti. Það væri á endanum fallið til þess að skaða hagsmuni neytenda og bænda.
MS skaut málinu til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem komst að þeirri niðurstöðu að undanþáguákvæði í búvörulögum hefðu vikið banni samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu til hliðar. Sektin var felld úr gildi, en nefndin staðfesti að MS hefði framið alvarlegt brot með því að halda upplýsingum frá yfirvöldum, og fyrirtækið ætti að greiða 40 milljóna sekt vegna þess. Áfrýjunarnefndin klofnaði í afstöðu sinni til málsins.