Skuldastaða sjávarútvegsfélaga hefur lækkað til muna frá því að skuldir félaga í greininni náðu hámarki í 619 milljörðum króna á árinu 2008. Á árinu 2015 námu skuldir sjávarútvegsfyrirtækja um 333 milljörðum króna og hefur skuldastaða félaganna ekki verið lægri eftir efnahagsáfallið 2008.
Þetta kemur fram í skýrslu sjávarútvegsteymis Íslandsbanka.
Frá hápunkti
2008 hafa skuldir sjávarútvegsfélaga lækkað um 286 milljarða króna eða
um 46 prósent. „Þegar fjármögnunarhreyfingar sjávarútvegsfélaga eru
skoðaðar sést hvernig bætt afkoma félaganna undanfarin ár hefur
skapað svigrúm til niðurgreiðslu langtímaskulda. Í fyrsta skipti
frá árinu 2007 hafa nýjar lántökur verið umfram afborganir og
nemur munurinn um 18 mö.kr. Til samanburðar námu afborganir
umfram nýjar lántökur á árunum 2008-2014 um 148 mö.kr. á
verðlagi ársins 2015. Þrátt fyrir að nýjar lántökur ættu sér stað á
árinu 2015 minnkaði skuldsetning sjávarútvegsfélaga engu að
síður. Bendir það til þess að sjávarútvegsfélög séu í auknum mæli
að greiða niður skammtímalán sín,“ segir í skýrslunni.
Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja á árinu 2015 nam 45 milljörðum króna en heildartekjur voru 275 milljarðar. Hagnaðurinn jókst um 3,7 prósent milli ára.
Að mati sjávarútvegsteymisins mun draga úr hagnaði fyrirtækjanna á þessu ári, og jafnvel því næsta, þar sem styrking krónunnar gagnvart helstu alþjóðlegu myntum veikir rekstrarstöðu félaganna. „Einnig teljum við að gengi krónunnar muni halda áfram að styrkjast á næstu misserum. Mun þetta að öðru óbreyttu leiða til þess að hagnaður sjávarútvegsfélaga lækki á árinu 2016,“ segir í skýrslu teymisins.